143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nú reyndar ekki bara bankarnir sem fá minni vaxtatekjur, þetta kemur eitthvað við Íbúðalánasjóð. Hverjir eiga hann? (Gripið fram í: Ríkisvaldið.) Síðan hefur þetta auðvitað áhrif lífeyriskerfið. En vandinn er sá að að því marki sem við tölum um þessa aðgerð, hverjir eru að lækka skuldirnar á hverjum? Við erum að lækka skuldirnar á okkur sjálfum. Íslendingar eru að lækka skuldirnar á sjálfum sér. Þeir ætla að borga fyrir það sjálfir, þ.e. ríki og sveitarfélög sitja eftir með skuldir sínar í staðinn. Við hefðum getað notað þessa fjármuni, a.m.k. 80 milljarðana, til að lækka skuldir ríkissjóðs, það eru skuldir okkar allra saman. En það er ekki gert, (Gripið fram í.)heldur verða lækkaðar skuldirnar hjá tiltekinni kynslóð á tilteknu tímabili og þeim mun meira sem menn hafa hærri tekjur og eiga jafnvel miklar eignir og reikningurinn er sendur inn í framtíðina. Þetta er bara svona. Þeir verða að bera ábyrgð á því, þ.e. hafi menn áttað sig á því hvernig þetta er sem ég geri ráð fyrir að skynugir menn geri skulu menn vesgú bera pólitíska ábyrgð á því að það er verið að skutla þessum risavaxna reikningi fyrst og fremst inn í framtíðina.