143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þá hefði ég gjarnan viljað doka við og fá tillögurnar um framkvæmdina gagnvart öllum hinum hópunum á borðið. Hvað kostar það í viðbót? Eigum við ekki að setjast niður og sjá hvað við getum gert, hvað er viðráðanlegt, ef við ætlum að fara í stærri hring á því að lækka skuldirnar hjá okkur sjálf, Íslendingar? Það sem er verið að fara að horfast í augu við er að það koma ekki neinir peningar af himnum ofan inn í þetta. Það erum við sjálf, þó aðallega börnin okkar og skattgreiðendur framtíðarinnar, sem eigum að bera þennan reikning beint eða óbeint, beint í þeim skilningi að ef við tækjum einhverja fjármuni og notuðum þá í að greiða niður skuldir okkar værum við betur stödd sem því nemur. Það væri það ábyrgasta að mínu mati. Eða við færum einhverja blandaða leið og segðum: Við ætlum að setja svona mikla peninga í að aðstoða þá sem eiga erfiðast í sambandi við húsnæðiskostnað. Eru það endilega þeir hópar sem verða hér undir? Nei, það er almennt viðurkennt að leigumarkaðurinn er sennilega erfiðastur í dag og staða þeirra sem þar eru miklu erfiðari en þessa hóps. Þá finnst mér að við hefðu átt að hafa allan pakkann uppi á borðinu og takast á við það (Forseti hringir.) í einu stóru samhengi hvað við gætum gert.