143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast nú bara ekki við að sá hluti kostnaðar þessara aðgerða, sem kemur til dæmis beint frá ríki og sveitarfélögum í formi tapaðra skatttekna á næstu árum og inn í framtíðinni, komi frá fjármálastofnunum. Það kemur bara frá okkur sjálfum, börnunum okkar eins og ég hef farið yfir. Og aftur er talað um heimilin. Já, en hvaða heimili? Ekki öll heimilin í landinu, það er algjörlega morgunljóst. Þetta tekur til minni hluta heimila í landinu og tekur til þeirra með mjög sérstökum hætti, t.d. þannig að líklegasti hópurinn til að fá fulla niðurfærslu höfuðstóls eru þeir sem voru svo sterkefnaðir að þeir fengu ekki einu sinni sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna. Þetta er bara svona. Menn geta gert lítið úr því að það séu ekkert óskaplega margir eða þeir sem borga auðlegðarskatt og fá líka lækkun, fá hann felldan niður og svo lækkun. Jú, þeir gætu samt verið á milli fjögur og fimm hundruð. Það er þessi forsvörun fjármuna sem þarf að svara fyrir ef menn ætla að láta sig hafa það að samþykkja þetta allt saman svona og fara svo heim og ræða við börnin sín og barnabörnin um að þau komi svo til með að borga þetta.