143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það voru mjög eftirminnilegir mánuðir hér í þinginu í kjölfar hruns gjaldmiðilsins og fjármálakerfisins haustið 2008. Hér voru brennd jólatré og mótmæli voru úti á Austurvelli. Á Íslandi var í raun sviðin jörð og við blasti fjöldagjaldþrot heimila. Höfuðstóll verðtryggðra lána hafði hækkað eftir rosalegt verðbólguskot í kjölfar hruns gjaldmiðilsins. Höfuðstóll gengistryggðra lána hafði að sama skapi hækkað um tugi prósenta.

Það hefði verið fullkomið glapræði á þessum tíma að gera ekki neitt. Þá hefðu heimili einfaldlega farið í gjaldþrot sem hefði haft keðjuverkandi áhrif í för með sér og fleiri heimili hefðu farið í gjaldþrot og það hefði magnað hrunið til mikilla muna. Þess vegna var gripið til fjölmargra ráðstafana. Og mér finnst þær ráðstafanir í umræðunni hér í þingsal um skuldamál heimilanna, nú sex árum síðar, dálítið mikið gleymast.

Bankarnir á almennum markaði gripu til ýmissa ráðstafana. Ég man t.d. eftir því, ég sat í félags- og tryggingamálanefnd á þessum tíma, að mér þótti það svolítið merkilegt þegar Íslandsbanki kom á fund nefndarinnar og tilkynnti að hann ætlaði að gefa lánþegum sínum kost á því að lækka höfuðstól sinna lána um 20%, og aðrar lánastofnanir gripu til þessa úrræðis, ég nefni bara eitt, strax eða fljótlega í eftirleik hrunsins.

Nauðungaruppboðum var frestað. Gjaldþrotalögum var breytt þannig að kröfur fyrnast nú á tveimur árum. Það er það næsta sem við komumst í raun og veru að lyklafrumvarpi.

Við settum á stofn heila stofnun sem heitir umboðsmaður skuldara með mjög tímabærri og viðamikilli löggjöf um greiðsluaðlögun, greiðsluaðlögunarlög. Fólk í miklum vanda getur farið til þessarar stofnunar og fengið jafnvel fulla afskrift allra sinna lána ef það getur ekki staðið skil á afborgunum. Þetta er frelsi frjálsra samninga einstaklinga við kröfuhafa sína, sem við komum á með löggjöf. Það skyldi ekki vanmetið.

Gripið var til alls konar almennra aðgerða eins og 110%-leiðarinnar, sem var leið til að reyna að koma fólki úr skuldafangelsi, reyna að taka á neikvæðri eiginfjárstöðu fjölmargra heimila. Farin var sú leið að gefa kost á afskrift miðað við eignir, miðað við matsverð eignanna. Fjölmargir nýttu sér það úrræði. Gefinn var kostur á því að fólk gæti samið við lánardrottna sína í gegnum sérstaka skuldaaðlögun og fjölmargir nýttu sér það. Dómar um ólögmæti gengistryggðra lána féllu og höfðu mikil áhrif á skuldastöðu heimilanna, ekki síst hjá þeim sem skulduðu bílalán. Það voru um 40 milljarðar afskrifaðir að mig minnir hjá þeim sem skulduðu bílalán, en þau höfðu skapað mjög mikinn vanda á þessum tíma.

Fólki var gefið færi á því að taka út séreignarlífeyrissparnað sinn og nýta hann, ekki skattfrjálst, til að mynda til þess að greiða niður lánin sín. Það hefur verið hægt að taka út séreignarlífeyrissparnað undanfarin fimm ár að ég held.

Fólk fékk sérstakar vaxtabætur til þess að bæta upp fyrir verðbólguskotið, sem var vissulega mjög mikið og nánast án fordæma. Það var því ýmislegt gert. Mér finnst alveg óhikað hægt að segja að núna er ekki sviðin jörð hér á landi. Fjöldagjaldþrot heimilanna blasir ekki við.

Það sem við horfum fram á núna eru einfaldlega hagstjórnarleg viðfangsefni um það hvernig við sköpum sem best skilyrði fyrir efnahagslífið, hvernig við sköpum sem best skilyrði til að bæta kjör á Íslandi, hvernig við sköpum skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi sem skilar meiri framleiðni en atvinnulífið gerir núna. Það bætir kjör, það gerir fólki kleift að spara í miklu meiri mæli en það getur gert nú.

Hvernig komum við á verðstöðugleika? Þar þurfum við nú aldeilis að horfa á gjaldmiðilinn að mínu mati. Fátt yrði meira til hagsbóta fyrir heimilin en verðstöðugleiki, með minni vöxtum þar af leiðandi. Munum við einhvern tíma upplifa á Íslandi íbúðalánamarkað þar sem við getum tekið óverðtryggð lán og treyst því að þau séu á 3–4% vöxtum þangað til þau eru greidd upp? Er það ekki eitthvað sem við sjáum í nágrannalöndunum og er það ekki eitthvað sem við ættum að stefna að hér? Er það ekki verkefnið sem er meira til hagsbóta fyrir heimilin?

Ættum við ekki að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem eru skuldir okkar allra? Engin aðgerð mundi skapa jafn mikið svigrúm fyrir næstu ár og komandi kynslóðir en að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem núna hafa það í för með sér að afborganir eru um 70–80 milljarðar í ríkisreikningi á ári hverju. Allt þetta þarf að gera og við þurfum að móta okkur stefnu í húsnæðismálum — vissulega er byrjað að setja þá stefnu og búið að kynna hana og ég fagna því — sem tekur á stöðu allra heimila, hvort sem það eru heimili sem eiga húsin sín eða leigja þau. Ég fagna því að þetta er byrjað.

Frumvarpið sem við ræðum hér, og einnig frumvarpið sem við ræðum á morgun, finnst mér einfaldlega ekki vera í takt við tímann. Mér finnst þetta allt of kostnaðarsamar aðgerðir, allt of ómarkvissar, allt of viðamiklar miðað við tilefnið. Og þær eru slæmar út frá sjónarmiðum hagstjórnar. Þessar aðgerðir báðar munu að öllum líkindum auka neyslu. Þær bæta ekki grundvöll efnahagslífsins. Það liggur fyrir að verulegar líkur eru á því á að þær hækki vaxtastigið í landinu, hafi í för með sér meiri verðbólgu. Það er einmitt það sem við þurfum ekki að gera á þessum tímapunkti, alls ekki og aldrei.

Sumir eiga enn þá í miklum skuldavanda. Íbúðalánasjóður fór yfir það fyrir nefndinni að um 7% vanskil eru á lánum hjá sjóðnum. Þar af má segja að helmingur séu eðlileg vanskil, vanskil sem sjóðurinn hefur ekki áhyggjur af og mun aldrei eyða þeim vanskilum. Það eru um 3% sem eiga í virkilega miklum erfiðleikum. Og við heyrum það líka frá umboðsmanni skuldara að margir eiga í miklum erfiðleikum. Öll þekkjum við fólk sem á í erfiðleikum vegna skulda.

Það sem er svo vont við þessi frumvörp er að þau eru ekki einungis slæm sem innlegg í skynsamlega hagstjórn heldur leysa þau ekki heldur vanda þeirra skuldara sem glíma við erfiðleika. Þá finnst mér botninn algjörlega botninn farinn úr þessu.

Þeir sem eru í miklum erfiðleikum eiga í svokölluðum greiðsluvanda. Það er aðallega fólk með litlar tekjur. Það er fólk sem safnar ekki miklum viðbótarlífeyrissparnaði og þar af leiðandi mun þetta úrræði ekki nýtast því mikið. Það er jafnvel fólk sem hefur ekki efni á því að greiða neitt í afborganir af lánum eða í leigu. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þeim hópi. Það þarf að grípa til úrræða til að mæta vanda hans. En hér ætlum við með tveimur frumvörpum að ausa 120, 130, 140, 150 milljörðum úr ríkissjóði sem við ætlum að borga með skatttekjum framtíðarinnar án þess að taka á vanda þeirra sem eiga í erfiðleikum, sem eiga sannanlega í miklum erfiðleikum, án þess að bæta skilyrðin fyrir heimilin að öðru leyti, án þess að þetta sé skynsamleg hagstjórn.

Spurningin blasir einfaldlega við: Af hverju erum við að þessu? Þetta hefði kannski verið á einhvern hátt skynsamleg aðgerð þegar við vorum í eftirleik hrunsins að búa til allar þessar neyðarráðstafanir. Það þurfti að gera ýmislegt og ég fór yfir það áðan að það var gert mjög mikið. Það hefur m.a. skilað þeim árangri að jörð er ekki sviðin lengur, fjöldagjaldþrot blasa ekki við. Það er augljóst að við þurfum að haga okkur skynsamlega í hagstjórn og við þurfum að horfa til framtíðar. Og við þurfum að bjarga þeim sem eiga í erfiðleikum.

Þetta frumvarp og frumvarpið sem við ræðum á morgun gera það ekki. Það er alveg kristaltært í mínum huga og þess vegna eru þau mjög óskynsamleg. Og hvers vegna eru þau óskynsamleg? Bæði frumvörpin eru mjög dýr. Samkvæmt áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kostar þetta frumvarp ríkissjóð í framtíðartekjum og sveitarfélögin um 30 milljarða. Svo kostar það Íbúðalánasjóð líka umtalsverðar fjárhæðir.

Hvaðan eru þessir peningar teknir? Þetta eru framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga. Þar með fjármögnum við þessa aðgerð einfaldlega með skatttekjum komandi kynslóða, barna okkar. Það finnst mér algjörlega ólíðandi hugsun vegna þess að það eru til aðrar leiðir. Við gætum notað þá peninga sem við getum mögulega náð í á þessum tímapunkti til að greiða niður opinberar skuldir, til að fara í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Þá mundum við spara pening fyrir komandi kynslóðir. Þá mundum við auka svigrúmið fyrir komandi kynslóðir til þess að gera ýmislegt annað. En við ætlum að velta reikningnum yfir á komandi kynslóðir, það er það sem stendur til að gera hér.

Ég vil bara vekja athygli á þessu og draga alveg skýrt fram vegna þess að það eru til aðrir valkostir, það eru til aðrar leiðir. Það eru til aðrar leiðir í meðferð ríkisfjármála, það eru til aðrar leiðir í hagstjórn en þessi. Þetta er að mínu viti andstyggileg nálgun og óábyrg.

Kostnaðurinn í almannatryggingakerfinu mun vaxa mikið í framtíðinni. Okkar kynslóð mun þurfa mjög á lífeyrisgreiðslum að halda. Við erum mjög fjölmenn, ákaflega fjölmenn kynslóð. Og það er kannski ekkert skrýtið að þeir sem eru vörsluaðilar núna að viðbótarlífeyrissparnaði geri ekki stórkostlegar athugasemdir við frumvarpið sem við ræðum nú. Þeir hafa í sjálfu sér litla fjárfestingarkosti innan lands í gjaldeyrishöftum og hafa kannski ekkert á móti því að launþegar muni núna í þrjú ár ekki greiða inn á þessa reikninga heldur nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða niður húsnæðislán. En það er almannatryggingakerfið sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Ef við göngum á viðbótarlífeyrissjóðinn, séreignarlífeyrissparnaðinn mun þessi kynslóð, þegar hún fer á lífeyrisaldur, þurfa liðsinni almannatryggingakerfisins í meiri mæli. Af því hef ég áhyggjur. Ef viðbótarlífeyrissparnaðar nýtur ekki við verður krafa gerð á almannatryggingakerfið einhvern tíma í framtíðinni um að létta undir með okkar kynslóð.

Mun þessi kynslóð þá ekki stofna stjórnmálaflokk eða hagsmunasamtök til að berjast fyrir því að fá þá peninga, peningana sem hún ætlar að eyða núna? Verður það ekki líkleg atburðarás miðað við allt og allt?

Þessi aðgerð er sett fram á svolítið göfugan en líka svolítið kæruleysislegan hátt. Það er sagt: Það er bara verið að færa til á milli sparnaðarforma, verið að gefa fólki kost á því að fara með peninginn úr lífeyrissparnaði yfir í húsnæðissparnað. Ég væri reiðubúinn að fallast á að gefa fólki þetta val, eins og hefur verið gert á undanförnum árum, en það er skattleysið sem truflar mig vegna þess að það er fjármagnað af komandi kynslóðum. Þetta eru einfaldlega skatttekjur framtíðarinnar og það er ósjálfbær hugsun um ríkisfjármál og það er óábyrgt.

Mér finnst líka að menn skauti hér dálítið auðveldlega fram hjá öðru. Það er munur á húsnæðissparnaði og lífeyrissparnaði. Lífeyrissparnaður er ekki veðhæfur, hann er ekki aðfararhæfur, fólk á hann burt séð frá því hvað á dynur. Húsnæðissparnaður er aðfararhæfur, hann er veðhæfur. Mér finnst ákaflega líklegt og mér finnst það algjörlega vanmetinn möguleiki að eftir langvarandi lífskjararýrnun í kjölfar hruns á Íslandi og eftir mikla uppbyggingu væntinga til neyslu hjá heimilunum, til nauðsynlegrar og ónauðsynlegrar neyslu, að sá húsnæðissparnaður sem þarna myndast verði einfaldlega veðsettur. Fólk muni sækja þennan pening til neyslu með því að nýta veðrýmið til skuldsetningar.

Af hverju segi ég að það séu líkur á þessu? Jú, það er vegna þess að það hefur gerst áður og í boði sömu flokka og boða þessar tillögur nú. Þegar veðrými var aukið á íbúðarhúsnæði í kringum 2004 með því að hækka þak veðsetningar upp í 90% gerðist einmitt þetta. Heimilin höfðu miklar væntingar til neyslu og mikla þörf á neyslu en höfðu ekki aðgang að sparnaði á reikningum sínum — en það er undirliggjandi vandi í íslensku efnahagslífi sem þarfnast hagstjórnarlegra úrræða að sparnaður sem heimilin geta nýtt til sveiflujöfnunar er lítill, heimilin geta ekki lagt fyrir. Hvað virðast þau þá gera þegar veðrýmið er aukið og gerðist í stórum stíl árið 2004? Þau skuldsetja sig til að sækja peninginn til neyslu eða sveiflujöfnunar. Eru ekki verulegar líkur á því að þetta gerist nú? Að heimili sem núna geta greitt inn á húsnæðislán sín um 2 milljónir með því að nota séreignarsparnaðinn muni einfaldlega með tíð og tíma, vegna þess að þörfin á viðhaldi hjá heimilum, þörfin á neyslu er mikil — lítum bara á bílaflotann, hann er mjög gamall — nýta svigrúmið til veðsetningar til að skuldsetja sig aftur.

Munu lánastofnanirnar ekki líka vilja það? Lánastofnanirnar þurfa að koma öllu því fé sem verður núna uppgreitt aftur í umferð. Þær þurfa að endurlána féð. Það er því ekki alveg þannig að hér höfum við lífeyrissparnað og hins vegar húsnæðissparnað og þetta séu algjörlega jafngild form sparnaðar. Það er ýmsum annmörkum háð að taka pening úr lífeyrissjóðakerfinu, með tilheyrandi byrðum á komandi kynslóðir og almannatryggingakerfið í framtíðinni, og setja hann í húsnæðissparnað.

Ég er hins vegar mjög opinn fyrir því, eins og fleiri hér í umræðunni, að hanna sérstakt húsnæðissparnaðarkerfi sem mundi nýtast ungu fólki til að kaupa sína fyrstu íbúð, það væri meginmarkmið þess. En ég held að við ættum ekki að seilast í viðbótarlífeyrissparnaðinn í því skyni.

Mér finnst há þessu öllu mjög mikill skortur á framtíðarsýn. Núna erum við að sækja að óþörfu í pening sem við eigum að eiga til framtíðar. Það er einkum á þeim forsendum, á forsendum þess að ég er algjörlega á móti þeirri hugsun að taka peninga af komandi kynslóðum til að fjármagna okkur núna, sem ég get ekki fellt mig við þetta frumvarp og heldur ekki hitt sem við ræðum á morgun.