143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel verulegar líkur á því að þessar aðgerðir auki verðbólgu og hækki þar með vaxtastig og séu þar með slæmar út frá hagstjórnarlegu tilliti. Þær auka ekki svigrúm ríkissjóðs sem væri hægt að gera með því að ríkissjóður notaði þessa peninga — og þá á ég nú kannski einkum við frumvarpið sem við ræðum á morgun — til að greiða niður opinberar skuldir. Það mundi auka svigrúm ríkissjóðs til langs tíma og hafa mjög góð hagstjórnarleg áhrif.

Ég sé ekki hvernig hugsunarhátturinn á bak við þessi frumvörp á að auka ábyrgðartilfinningu fólks fyrir eigin fjármálum. Ríkisvaldið er beinlínis að segja hér að það ætli að greiða hluta af skuldum fólks. Er það eitthvað sem á að vera í framtíðinni líka? Og hvaða skilaboð eru það til markaðarins, má fólk búast við því að ríkisvaldið muni gera þetta ítrekað á 21. öldinni, að greiða hluta skuldanna? Mér finnst þetta vera alveg þveröfug skilaboð við það sem ætti að gera, þ.e. að auka stöðugleika, skapa betri skilyrði (Forseti hringir.) og hjálpa þeim sem eru í vanda og bæta kjör og auka framleiðni. Það eru þau verkefni sem eru fyrirliggjandi og er ekki verið að fara í.