143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir afbragðsræðu, hann fór vel yfir hér úrræði á síðasta kjörtímabili. Ég ætla nú ekki að eyða orkunni í það.

Ríki og sveitarfélög eru ekkert annað en fólkið sem myndar þessar einingar. Hv. þingmaður talaði um að komandi kynslóð yrði skilin eftir með einhvern reikning. Ég held að það yrði miklu dýrara fyrir okkur að gera ekki neitt í þeim efnum og dýrara fyrir samfélagið þegar upp er staðið.

Hv. þingmaður kom inn á það að íslensk heimili væru of skuldsett, talaði um efnahagslegar aðgerðir. Finnst hv. þingmanni það ekki vera tilefni til að fara í efnahagslegar aðgerðir til að ná niður skuldum heimilanna?