143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns. Hún var um margt ágæt en um margt svolítið sérkennileg.

Fyrst skiptir máli að menn séu meðvitaðir um það að viðbótarlífeyrissparnaðurinn er til kominn sem val á sparnaði. Þeir sem leggja í viðbótarlífeyrissparnað geta tekið hann út um sextugt. Hann hefur ekkert með almannatryggingakerfið að gera, ekki þetta hefðbundna lífeyriskerfi.

Hv. þingmaður sagði að þeir sem gættu vörslufjárins væru frekar slakir yfir þessu vegna þess að það væru fáir fjárfestingarkostir næstu árin. Eins sagði hv. þingmaður að þetta væri mjög slæmt vegna þess að við fengjum svo mikla ávöxtun á viðbótarséreignina í framtíðinni. Sér hv. þingmaður ekkert samhengi þarna? Núna er vandi samkvæmt hv. þingmanni að fjárfestingarkostir eru fáir. Heldur hv. þingmaður að það hafi ekki nein áhrif á ávöxtun á næstu árum og áratugum?