143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þetta með ávöxtunina, hún er auðvitað til áratuga, til langs tíma, og við gerum vonandi ekki ráð fyrir því að hér verði fáir fjarfestingarkostir og gjaldeyrishöft til áratuga, eða hvað? Við verðum því að skoða það í samhengi við alla öldina og horfa til framtíðar. Ég meina, það er ekki skynsamlegt, finnst mér, að við séum að baða okkur upp úr skattfrelsi núna á viðbótarlífeyrissparnaði í boði barnanna okkar sem mundu annars njóta þessara skatttekna í framtíðinni.

Svo þetta með að greiða niður skuldir, að sjálfsögðu er það skynsamlegt. Það hefur verið rauður þráður í málflutningi mínum hér að það ætti að vera eitt meginviðfangsefni hagstjórnar að bæta skilyrði heimilanna, bæta skilyrði efnahagslífsins þannig að fólk geti farið að leggja fyrir. Þá væri skynsamlegt að greiða niður skuldir.

Ég hef fært fyrir því rök að vegna þess að heimilin hafa ekki lagt fyrir njóta þau ekki sparnaðar til sveiflujöfnunar. Þau hafa væntingar til neyslu, nauðsynlegrar neyslu (Forseti hringir.) og ónauðsynlegrar neyslu. Því munu þau að öllum líkindum ekki láta þennan pening einungis staldra við inni á húsnæðisláninu, (Forseti hringir.) heldur sækja aukið veðrými til veðsetningar og skuldsetningar að nýju. Það er ekki langt síðan þetta gerðist í íslensku samfélagi, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Vá!)