143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Vandinn er sá að þessar aðgerðir leiða einmitt ekki til jöfnuðar í samfélaginu, það er augljóst. Það er meira að segja er bætt í með því að hækka viðmiðið þannig að þeir sem eru með hæstu tekjurnar fái enn meiri skattafslátt.

Auðvitað er það ekki svo að verið sé að beina peningunum og skattafslætti að þeim sem þurfa mest á því að halda. Það er hrópandi augljóst að hv. meiri hluti þingmanna á Alþingi Íslendinga hefur ekki það markmið með þessum aðgerðum að auka jöfnuð. Sú tillaga sem ég legg hér fram og rökstuðningur minn með henni gengur út á að sú upphæð sem samþykkt er í fjárlögum ársins 2014 muni örugglega ganga til barnafjölskyldna. Ég bið um að tillögur mínar verði metnar og reiknaðar út eftir þeim gagnagrunni sem notaður er til að úthluta barnabótum, ég hef ekki aðgang að þeim gagnagrunni. En ef hv. þingmaður hefur hlustað á rökstuðning minn, og kannski hef ég haft hann of flókinn, miðast málið að því að samþykkt upphæð gangi til barnafjölskyldna eins og hv. alþingismenn samþykktu hér, eða meiri hluti þeirra, við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.