143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu og nota tækifærið hér vegna þess að í salnum er hv. minni hluti fjárlaganefndar eins og leggur sig, hv. þingkonur Brynhildur Pétursdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir. Sú síðastnefnda hélt þessa ræðu sem ég minntist á. (Gripið fram í: Flottur hópur.) Þetta er flottur hópur og ég þakka þeim fyrir álit þeirra sem er fylgiskjal við nefndarálit meiri hluta um það frumvarp sem er til umræðu.

Hv. þingmaður kom inn á áhrif á Íbúðalánasjóð sem talað er um í áliti minni hluta fjárlaganefndar. Þar er á minnisblaði frá Íbúðalánasjóði um tap byggt á ýtrustu tölum og þær koma heim og saman við tölur í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarpið. Þetta byggir á því að sjóðurinn geti ávaxtað uppgreiðslur sínar á 1,5%.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fjargviðrast yfir því að menn gefi sér ekki 3,5% ávöxtun á einhverjar framtíðarfórnaðar tekjur sveitarfélaga og ríkis en geta svo notað 1,5% á Íbúðalánasjóð. Ef við gefum okkur að ríkissjóður fjármagni sig á 3,5%, er þá ekki bara skynsamlegt að ríkissjóður bjóði Íbúðalánasjóði að taka uppgreiðslurnar?