143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil jafnframt draga fram að í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem fylgir nefndaráliti meiri hlutans, kemur fram, með leyfi forseta, „að árlegt vaxtatap sjóðsins yrði 1,3 milljarðar kr. eða 5,2 milljarðar kr. á fjórum árum“. Þetta eru tölur sem byggja á því að ekki muni allir velja að greiða upp lán sín hjá sjóðnum.

„Meiri hlutinn bendir á að um þessar mundir er unnið á heildstæðan hátt að málefnum Íbúðalánasjóðs í velferðarráðuneytinu.“

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga og jafnframt að þegar við gefum okkur ýtrustu tölur í báðar áttir höldum við þá þeim sannleik til haga að þegar við horfum inn í framtíðina séum við ekki að flagga 3,5% áherslum á fórnaðar tekjur og svo halda ýtrustu kröfum í hina áttina.

Í þessu seinna andsvari vil ég spyrja hv. þingmann annars. Ef við hættum að tala um Íbúðalánasjóð einan og sér er ýmislegt í þessari góðu umræðu sem styrkir það úrræði sem við ræðum hér, eins og að það sé skynsamlegt efnahagslegt úrræði, hvati til sparnaðar, dragi úr hættu á bólumyndun og dragi úr þenslu. Það er besti ávöxtunarkosturinn í boði, þ.e. að greiða niður skuldir í dag, það er þannig, og spara til öflunar húsnæðis. Það er valkostur.

Svo eru þeir sem eiga fasteign og spara ekki séreign nú þegar, það eru 20 þús. fjölskyldur, og þeir sem eiga ekki fasteign og spara ekki séreign, 38 þúsund. (Forseti hringir.) Hvað er svo neikvætt við þessar staðreyndir?