143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins inn í þetta mál er varðar frumvarp um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Það hefur svo sem ýmislegt verið sagt um þetta mál bæði í dag og í fyrri umræðu en mig langar að renna yfir nokkur atriði.

Í áliti meiri hlutans er m.a. fjallað um greiðslujöfnunarreikninga og hafa þeir verið ræddir hér töluvert þar sem við í minni hlutanum erum, held ég, sammála um að þetta sé ekki rétt aðferðafræði. Mér finnst við eiginlega vera að eyðileggja aðgerð síðustu ríkisstjórnar með því að gera þetta. Það væri áhugavert að vita hversu hátt hlutfall tengist málinu á morgun, þeim 20 milljörðum sem á að útdeila í fyrsta kasti í þeirri púllíu, hvað mikið af því fer inn á greiðslujöfnunarreikning og hversu hátt hlutfallið er hjá Íbúðalánasjóði.

Mér finnst líka athugunarvert og hef velt því upp af hverju megi ekki borga inn á dýrasta lánið sem maður er hugsanlega með á húsnæði sínu í veðsetningu. Af hverju þarf að borga lán á 1. veðrétti sem er væntanlega með hagkvæmustu vöxtunum, á bestu kjörunum? Það er a.m.k. líklegt að það sé svoleiðis og síðan hafi viðkomandi hugsanlega þurft að taka einhver endurbótalán eða einhver slík lán og þau eru þá aftar á veðrétti og leiða má líkur að því að á þeim lánum séu hærri vextir. Ég hefði viljað, ef einhver slík aðferð væri farin, að a.m.k. væri hægt að greiða upp óhagstæðustu lánin sem eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Varðandi séreignarsparnaðinn hefur aðeins verið komið inn á það hér í dag að hann verður aðfararhæfur með þessari aðgerð, þ.e. þegar búið er að borga niður höfuðstólinn að einhverju leyti með honum. Því er auðvitað rétt athugasemd að þeir sem eru illa staddir nýti sér þetta ekki. Svo veltir maður því fyrir sér hvort þeir sem eru mjög illa staddir eigi yfir höfuð einhvern sparnað til að nýta sér þetta úrræði yfirleitt.

Það var líka nefnt hér fyrr í dag að nefndin hefði verið hvött til að gera á þessu breytingar varðandi aðra hópa, sem hún hefði ekki fallist á. Meiri hlutinn telur að hægt sé að gera það með einhverjum öðrum hætti og síðar. Það hefur svo sem ekki verið skilgreint, það hefur verið rætt og bent á nýjar tillögur húsnæðismálaráðherra um þessi mál en það er ekki neitt sem hefur verið komið í verk. Ég tek undir það sem var rætt hér í dag að það hefði þá átt að taka þetta allt í einni púllíu til að sjá hvað við höfum til ráðstöfunar af því að við vitum ekki hvað hinar aðgerðirnar kosta sem viðraðar eru í frumvarpi ráðherrans.

Það kemur líka fram í áliti minni hlutans, um þá jákvæðu hugsun sem lýtur að því að auka húsnæðissparnað og var rædd af síðasta hv. þingmanni, að það eigi ekki að tengja þetta saman, eins og gert er í nýju tillögum húsnæðismálaráðherra, heldur eigi miklu frekar að koma á sérstökum húsnæðissparnaði og láta séreignarlífeyrissjóðinn okkar í friði. Mér finnst það.

Skiptar skoðanir hafa verið um margt en það liggur samt sem áður fyrir að stór hópur getur ekki nýtt sér þessar aðgerðir, m.a. stór hluti öryrkja, eldri borgarar eða fólk sem er um það bil að fara á eftirlaun. Sá hópur á ekki þennan möguleika. Þó að það sé gott til framtíðar litið að eiga skuldminna húsnæði, ég held að allir geti fallist á að það er af hinu góða að skulda sem minnst, þá breytir það ekki því að þetta gagnast ekki nema hluta fólks og er ekki endilega til þess fallið að leysa úr greiðsluvanda. Ég hef heyrt fólk ræða töluvert um að þetta leysi ekki endilega greiðsluvanda sem er kannski mikilvægast að leysa svo að fólk geti haft meira umleikis um mánaðamót. Þetta fólk er ekki þarna inni vegna þess að það á ekki sparnað sem það getur nýtt sér og þetta úrræði breytir þar af leiðandi engu fyrir það. Ef fólk getur ekki nýtt sér séreignarúrræðið og ef það er rétt skilið hjá mér að stærsti hluti fyrstu útgreiðslu vegna 20 milljarðanna fari upp í greiðslujöfnunarreikningana þá breytir það engu fyrir fólk, a.m.k. ekki í fyrsta kasti, þ.e. á næsta ári. Ég hugsa að það sé eitthvað annað en fólk ætlaði. Þetta er það sem hefur alla vega verið rætt við mig.

Í nefndaráliti meiri hluta stendur líka að frumvarpið feli í sér hvata til aukinnar vinnu og sparnaðar. Það er gott að vinna. Við Íslendingar erum þekkt fyrir að vinna mikið. Við erum nú þegar farin að tala um að stytta vinnuvikuna. Ég velti fyrir mér því sem hefur verið rætt hér, að ungt fólk sjái sér hag í því að fara út á vinnumarkaðinn og hvíla sig á námi eða eitthvað slíkt. Ég veit ekki alveg til hverra er verið að höfða, þeirra sem eru í lítilli vinnu eða ekki að vinna. Ég held að Íslendingar vinni almennt of mikið þannig að mér finnst þetta ekki endilega kostur. Við Íslendingar erum svo sem ekki þekkt fyrir að spara. Ég veit ekki hvort þetta er aðgerð til þess frekar en ég sé sammála því að þetta sé almenn aðgerð. Ég tel svo ekki vera, enda kom það fram í dag að þetta væri almenn aðgerð handa takmörkuðum hópi og mér fannst það eiginlega segja allt sem segja þurfti.

Minni hlutinn hefur gagnrýnt töluvert að ekki liggi ítarleg greining að baki þessum aðgerðum. Það kemur fram í umsögn okkar um bæði frumvörpin sem liggja fyrir, þ.e. vegna einstakra hópa. Við teljum þau gögn sem við höfum haft aðgang að ekki vera nægjanlega ítarleg. Aðgerðirnar hafa verið greindar eftir landsvæðum og er auðvitað afar áhugavert að sjá það. Það er sagt að ekki eigi að tala niður landsbyggðina eða etja landsbyggð og höfuðborgarsvæði saman en það er sláandi að sjá þær tölur sem þarna koma fram, hvernig þetta skiptist á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Íbúar á Vestfjörðum fá 1,1% áætlaða hlutdeild í heildarleiðréttingu, á Austurlandi 2,6%, á Norðurlandi vestra 1,3%. Þetta eru afar sláandi tölur á móti 70% sem falla á stórhöfuðborgarsvæðinu. Það má líka færa rök fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu sé langlíklegast að eignir hækki þannig að það má kannski segja að þetta muni leiðréttast að einhverju leyti af sjálfu sér af því að fasteignaverð hefur farið stígandi. Þessari aðgerð þyrfti jafnvel ekki að beita.

Í áliti minni hluta er talað um auknar ráðstöfunartekjur heimilanna. Við ræðum um ójöfnuð í samfélaginu og að þessar aðgerðir taki ekki tillit til efnahags eða eignastöðu. Okkar helsta gagnrýni hefur einna helst beinst að því og auðvitað því sem ég var að segja hér áðan, að lánastofnanir fái greitt allt sitt og með því sé í rauninni verið að borga, ef svo má að orði komast, aðgerðir fyrri ríkisstjórnar.

Ágætlega hefur verið farið yfir tekjutapið í tölum og eflaust má reikna það á marga vegu. Það er þó staðreynd að hér var verið að auka við með því að hækka heimildina úr 500 í 750 þúsund fyrir hjón eða samskattað fólk. Þá er verið að auka tekjumissi ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni og færa fjármagn á milli kynslóða þannig að þeir sem njóta núna eru ekki endilega þeir sömu og þurfa að borga brúsann.

Það er líka ágætt að velta fyrir sér, af því að við erum að tala um þjóð sem eldist mjög hratt, hvaða áhrif þetta hefur á lífeyriskerfið. Það er ágætt að hugsa um það í leiðinni hver komi til með að bera kostnaðinn af því þegar við þurfum að fara að hækka lífeyrisgreiðslur almannatrygginga ef við stöndum frammi fyrir því. Séreignarsparnaðinum var ætlað að búa til fjölbreyttan sparnað, ekki til að fjárfesta í húsi, hann var alls ekki hugsaður til þess. Ég held að það sé ekki gott að setja hann í steypu.

Svo hefur maður auðvitað áhyggjur af því að þetta étist upp í verðbólgu. Það verður áhugavert að heyra í stjórnarliðum hvað þeir segja um umsagnir fulltrúa Seðlabankans og fleiri fjármálafyrirtækja, sem hafa komið á fundi nefnda, þar sem maður les út úr þeim minnisblöðum sem hafa verið lögð fyrir að því sé spáð að hér verði aukin verðbólga. Þá kannski ést þetta svolítið hratt upp, það er a.m.k. hætta á því.

Í þessu samhengi er líka áhugavert að skoða, eins og kemur fram í frumvarpinu, þá sem leggja ekki fyrir í séreignarsparnað. Mig minnir að það hafi komið fram á bls. 5 að um 15 þús. einstaklingar leggi ekki fyrir séreignarsparnað. Þetta er vissulega valkostur en maður spyr sig: Er eitthvað sem veldur því? Er kannski enginn afgangur um mánaðamót til að leggja fyrir í séreignarsparnað? Það hefði verið áhugavert að fá slíkar greiningar af því að þetta er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu, en skýringar eru ekki í þessum gögnum.

Við erum hér að fjalla um ráðstöfun séreigna en hluti af aðgerðinni, sem á að fjalla um á morgun og margir hafa beðið eftir, á að fjármagnast af bankaskatti sem er ekki í hendi. Síðan eigum við sem einstaklingar að borga stóran hluta og stærri hluta en áður var gefið til kynna. Ég get ekki ímyndað mér að það sé það sem kjósendur ríkisstjórnarflokkanna áttu von á.

Við í Vinstri grænum höfum auðvitað rætt aðrar leiðir. Af því að hér var minnst á af hv. stjórnarliða í dag að búa til kerfi eða ekki, þegar væri nóg til af kerfum sem tækju á alls konar málum, þá er áhugavert að velta því upp að við eigum ágætistæki til að reikna út vaxtabætur, barnabætur og húsaleigubætur. Af hverju þurfum við að kosta til svona miklu þegar liggja fyrir á víð og dreif upplýsingar um kostnað vegna þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir? Þegar kostnaðurinn verður allur tekinn saman er áhugavert að sjá hvort hann verður meiri en sá sem fer í aðgerðirnar.

Ég ítreka að ég lít svo á að við stefnum í mikið óvissuástand með afdrif bæði ríkissjóðs og sveitarsjóða landsins langt inn í framtíðina þar sem kynslóðir sem á eftir okkur koma þurfa að taka á sig byrðar sem þær hefðu annars ekki þurft að gera. Síðan er Íbúðalánasjóður óvissuþáttur sem mér virðist ríkisstjórnin bjóða upp í verulega hættulegan dans með uppgreiðsluáhættuvanda sem er nú þegar nægur, en þetta eykur enn frekar á hann. Mér finnst eins og fólk fljóti sofandi að feigðarósi hvað þetta varðar eða afneiti því hreinlega nema það sé tilbúið að leggja fjármuni í Íbúðalánasjóð sérstaklega til viðbótar við þá fjármuni sem sjóðurinn þarf nú þegar.

Í restina ætla ég að tala um þá sem út af standa, fyrir utan þá sem ég hef hér áður nefnt. Það eru þeir sem eiga annars konar heimili því að heimili hefur verið skilgreint afskaplega þröngt. Ef ég á heima á dvalarheimili þá er það mitt heimi. Ef ég á heima einhvers staðar annars staðar þá er það mitt heimili. Heimili er ekki bara veðsetningarheimili eða íbúðarhúsnæði í einhverju tilteknu formi. Hér er gjarnan vísað í að það hafi alltaf verið talað um verðtryggð húsnæðislán. Þrátt fyrir það er samt skilinn eftir hluti fólks sem átti rétt á vaxtabótum en fellur ekki undir þetta úrræði ríkisstjórnarinnar. Það eru 25% heimila á leigumarkaði. Í lægsta tekjubilinu 2007 voru 9,5% á leigumarkaðnum. Núna eru 29% þeirra sem eru á lægsta tekjubilinu á leigumarkaðnum. Mér finnst vert að hugsa um að þarna eru margir sem þurfa jafnvel að reiða sig á velferðarstofnanir eða eiga erfitt að einhverju leyti og þessu fólki er ekki verið að mæta með þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til.