143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfsagt má alltaf velta því fyrir sér hvaða ávöxtun er betri en önnur. Það kom fram, bæði hjá Landsbankanum og Landssamtökum lífeyrissjóða, þegar verið var að fjalla um þessi mál í fjárlaganefnd, og töluvert var um það spurt hvort engin ávöxtun væri betri en þessi, þ.e. sá skattafsláttur sem í þessari aðgerð fælist. Þau svör sem við fengum í það minnsta voru þau að hægt væri að ná þessu fram með einhverjum blönduðum sparnaði og ég ætla ekkert að draga það í efa. Þó að ég telji það af hinu góða, eins og ég sagði í ræðu minni, að skulda sem minnst og greiða niður og allt það þá vænti ég þess að hægt sé að fá ávöxtun, eins og þar kom fram, eftir blönduðum leiðum. Já, ég held að það sé hægt.