143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Varðandi greiðslujöfnunarreikningana þá er það svo að það er aðeins hluti lánsins sem getur farið þar inn á og eins og þingmaðurinn kom inn á þá er það rétt að væntanlega gæti rúmlega eitt ár farið í að greiða niður þessa reikninga áður en viðkomandi skuldari færi að sjá greiðslubyrði hvers mánaðar lækka. Út af fyrir sig tel ég það mjög góða ávöxtun að fara þá leið.

Mig langar hins vegar að koma inn á það hvort þingmaðurinn sé sammála því að það sé mikilvægt, hvort svo sem við erum sammála þessari leið eða einhverri annarri, að tala gegn því að skuldsetning heimila aukist, að menn nýti þetta tækifæri til að lækka skuldsetningu heimila til framtíðar þannig að við setjum okkur í raun nýtt viðmið sem þjóðfélag hvað það varðar að eiga í húsnæði í staðinn fyrir að skulda í húsnæði.