143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir talaði um það áðan að fasteignamat færi hækkandi, ef ég skildi rétt, og að verðtryggð húsnæðislán mundu leiðréttast af sjálfu sér. Þá velti ég því fyrir mér hvort greiðsluvandi einstaklinga mundi hverfa af sjálfu sér þrátt fyrir að húsnæðisverðið hækki. Ég held að lánið haldi áfram í þeirri mynd sem það er þrátt fyrir að eignamyndunin verði kannski meiri og einstaklingar eigi þá enn í greiðsluvanda þrátt fyrir hærra fasteignamat.

Einnig kom hún inn á að það er lægra hlutfall sem fer á landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið, en þetta er almenn efnahagsleg aðgerð, sem á að hafa jákvæð áhrif, og þar sem skuldirnar hafa hækkað minna á landsbyggðinni, hlutfallslega minna, þá kemur minna til baka.