143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég sé helst jákvætt við frumvarpið er að unga fólkið getur núna lagt fyrir upp í væntanlega eign, mér finnst það að mörgu leyti jákvætt. En á sama tíma og við erum að tala um að auka virkan leigumarkað erum við svolítið að beina þessu inn á séreignarleiðina. Þetta er vissulega val, eins og hv. þingmaður segir, en mér finnst það val rosalega dýru verði keypt fyrir ríki og sveitarfélög, þ.e. í formi þess að tapa þeim framtíðartekjum sem ég held að komi aldrei til baka á þann hátt sem við verðum af þeim, ég held að þær skili sér aldrei aftur þannig. Það er fyrst og fremst það sem ég hef áhyggjur af. En jú, þetta er hugsanlega vinkill sem mér finnst sæmilega jákvæður.