143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Sívaxandi fjöldi fólks býr í skuldlausri eign. Það er talað um að 20% búi núna í skuldlausri eign. Ég geri ráð fyrir að þetta sé að mestu leyti eldra fólk sem hefur greitt upp lán af íbúðinni sinni. Þessar íbúðir eru náttúrlega ansi mikil búbót, það er mikil búbót að búa í skuldlausri eign þegar menn eru komnir á efri ár og ég mundi segja að það sé ekki síðra heldur en að eiga séreignarsparnað. Þegar menn falla svo frá erfa börnin ekki séreignarsparnaðinn en þau erfa fasteignina.

Varðandi það að sveitarfélögin og ríkið eigi tekjur okkar í framtíðinni, ég fellst ekki á það. Ég segi: Ég vil geta lækkað skatta á tekjur manna og eignir í framtíðinni án þess að sveitarfélög og ríkið komi til mín og segi: Þú mátt þetta ekki af því að við eigum þessar tekjur.