143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:08]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að lífeyrissparnaður þarf ekki allur að vera kerfisbundinn og ákveðinn hér af Alþingi. Lífeyrissparnaður getur líka verið ákvarðaður af lífeyrisþegunum sjálfum. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir segir að stoðir lífeyriskerfisins séu þrjár. Þær eru fjórar. Frjáls sparnaður er einnig ein af stoðum lífeyriskerfisins og við skulum ekki gleyma því en það er þannig að sú stoð hefur verið skattlögð alveg undir drep á liðnum árum og enginn haft nokkrar áhyggjur af. Það hefur því miður verið svo að sú stoð sem á heima í íslensku bankakerfi hefur stórlega dregist saman á liðnum árum vegna þess að það hefur verið skattlagt undir drep og á þetta vil ég minna hér í þingsal.

Ég hef lokið máli mínu.