143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Já, svarið var stutt og laggott, en skýrt. Ég held að ágætt væri ef við fengjum oftar, og vendum okkur á það hér, fleiri, að svara svo skýrt sem hv. þingmaður gerir.

Hann minntist líka á mismunun og ég er mjög sammála honum í því. Hann talaði um þá mismunun sem er á milli fólks sem á séreignarsparnað og getur tekið hann út núna í rauninni skattfrjálsan til að greiða niður húsnæði. Svo eru aðrir sem ekki eiga húsnæði og geta þess vegna ekki ráðstafað séreignarsparnaði í það.

Ég hef nokkuð velt fyrir mér þeirri mismunun sem mér finnst vera á milli þessa, vegna þess að nú var leyft að taka út séreignarsparnað á síðasta kjörtímabili vegna þeirra miklu erfiðleika sem fólk átti í eftir að samfélagið fór á hliðina. Það fólk greiddi fullan skatt af honum. Það er ekki svo langt um liðið síðan fólk var jafnvel að taka út séreignarsparnað sinn og þurfti að borga fullan skatt og þá auðvitað í hæsta skattþrepi sem það fólk gat komist í almennt. Það lagðist þá ofan á þær tekjur sem það hafði.

Mig langar aðeins að biðja þingmanninn um að segja mér hvort hann sé sammála mér að þarna sé ákveðin mismunun í gangi líka. Síðan langar mig að spyrja hann, af því að hann nefndi hjónabandið og hvernig fólk breytist í þrjá fjórðu við að gifta sig og verður þess vegna einn og hálfur: Væri það tillaga hans að fyrst ekki er hægt að setja eina upphæð á fasteign út af því að heimili er ekki skilgreint, skilst mér, í skattalögum (Forseti hringir.) að þá ættu allir einstaklingar að fá jafnt, þá sem sagt hefði hugsanlega átt að hækka þetta upp í 1 milljón en ekki 750 þúsund?