143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn sagði reyndar í máli sínu áðan að hann teldi að þetta frumvarp væri í raun of snemma á ferðinni miðað við að þær upplýsingar vantaði sem hann gat um frá Hagstofunni til að hægt væri að meta þá leið sem hér er farin.

Ég skil hann þannig að hann geti að minnsta kosti fyrir sitt leyti ekki stutt frumvarpið. Það er athyglisvert en það eru málefnalegar ástæður sem hv. þingmaður hefur tilgreint fyrir því og það ber að sjálfsögðu að virða. Ég geri það að sjálfsögðu og ég vonast til þess að félagar hans í stjórnarliðinu geri það líka.

Hitt verð ég að segja varðandi vangaveltur um sparnaðinn eða ekki að ég tel ég líklegt, eins og ég sagði, að við hv. þingmaður séum sammála um að mikilvægt sé að efla sparnað í landinu. Nú er hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason ekki þekktur fyrir hógværð þegar kemur að því að tjá sig almennt í samfélaginu um málefni sem lúta að fjárfestum, sparnaði og öðru slíku þannig að það kemur mér á óvart hvað hann er hógvær hér í svari við fyrirspurn minni hvað þetta snertir.

Er þingmaðurinn samt ekki að minnsta kosti, þótt hann vilji kannski ekki fullyrða um það á þessu stigi af því að það er svo sem alveg rétt að það getur verið erfitt að kveða upp úr um það, sammála því að hætta sé á því að skuldsetningin muni frekar aukast en hitt? Er ekki að minnsta kosti að sumu leyti ákveðinn hvati til aukinnar skuldsetningar í þeirri leið sem hér er farin?

Það er mikilvægt að fá það fram vegna þess að mér finnst menn hafa gert lítið úr því í umræðunni til þessa.