143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir yfirferð hans yfir þetta mál, sem var ágæt. Hann fór yfir alla helstu þætti og öll helstu álitamálin sem komið hafa upp og rakti sjónarmið sín til þeirra. Það var fróðlegt þó að ég sé nú ekki sammála öllu því sem hv. þingmaður ræddi um.

Það er tvennt sem ég mundi vilja inna hv. þingmann eftir. Honum varð tíðrætt um að í frumvarpinu fælist hvatning til sparnaðar. Eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Vilhjálm Bjarnason er ég þeirrar skoðunar, og deili því væntanlega með hv. þm. Pétri H. Blöndal, að mikilvægt sé að auka sparnað í samfélaginu, í hagkerfinu.

Ég er þeirrar skoðunar að áhrifin af þessari aðgerð á sparnað séu vægast sagt óljós. Vel kann að vera að það sé eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gat um, að hún muni fyrst og fremst leiða til þess að allt svigrúm verði notað til að auka sparnað, en hún getur líka leitt til aukinnar skuldsetningar, eins og ég gat um áðan í andsvari við hv. þm. Vilhjálm Bjarnason. Það að auka veðrými geti alveg eins verið tilfærsla þannig að það leiði til aukinnar einkaneyslu þegar upp er staðið og ekki til þess sparnaðar sem að er stefnt, sem væri mjög bagalegt ef sú yrði niðurstaðan.

Ég sé að tími minn í þessari fyrri lotu er á þrotum en ég vil vekja athygli á þessu og velta því upp við hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann hafi engar áhyggjur af því að þróunin geti orðið sú.