143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleymdi að svara þessu með auðsáhrifin, þ.e. þegar menn eigi meiri veðrýmd þurfi þeir endilega að eyða því. Því er til að svara að 21% heimila eru í skuldlausri eign. Það fólk hefur ekki haft neina þörf fyrir að nota þá veðrýmd sem það hefur upp á að hlaupa og býr þess vegna í skuldlausri íbúð. Ég held því að meginhlutinn muni ekki hlaupa á eftir aukinni veðrýmd til þess að skuldsetja sig, langt því frá.

Varðandi sveitarfélögin, hvort við viljum eyða peningum í dag til að láta börnin okkar borga hærra útsvar síðar meir og borga fyrir opinbera þjónustu, þá erum við að tala um þrjú ár sem menn geta fengið 6% af tekjum skattfrjálst. Það eru öll ósköpin. Hin 94% eru sköttuð. Ég held að þetta muni ekki hafa neinar alvarlegar afleiðingar fyrir sveitarfélögin, alla vega ekki í bráð.

Svo hafa menn talað til framtíðar. Ég ætla að vona að tækni og aukin hagsæld geri að verkum að ekki muni miklu um það þó að menn sleppi við að borga af sem nemur 6% af tekjum yfir þrjú ár, sem ekki allir munu nýta sér. Ég get ekki séð annað en að sveitarfélögin eigi að ráða við það, sem og ríkið, að gæta aukinnar hagsældar í rekstri. Þau hafa reyndar sýnt að þau geta það vel og hafa gert það undanfarin ár.