143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Umræða um þetta mál hefur staðið í dag og ég hef fylgst með umræðunni nokkuð grannt og verð að segja að mér finnst skoðanaskipti hafa verið uppbyggileg og málefnaleg. Það er ekkert óeðlilegt við að það séu uppi ólík sjónarmið í máli af þessum toga.

Ég hef í nokkrum andsvörum látið þau sjónarmið koma fram af minni hálfu að ég telji mikilvægt að auka sparnað í hagkerfinu almennt og ég tel, eins og fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efnahags- og viðskiptanefnd láta koma fram í sínu nefndaráliti, að það séu miklir kostir samfara því að greiða fyrir því að fólk leggi sitt af mörkum til að lækka skuldir sínar. Þessi leið séreignarsparnaðarins getur auðvitað verið ákveðin leið í því skyni en hún er ekki gallalaus og við teljum að í meðförum málsins í þinginu og í efnahags- og viðskiptanefnd hafi alvarlegir ágallar komið fram sem gera það að verkum að við teljum ekki unnt að standa að afgreiðslu þess.

Í fyrsta lagi hefur verið bent á það, sem kemur kannski aðeins inn á það sem kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í andsvörum við hv. þm. Pétur Blöndal, sem lýtur í raun að þeim væntingum sem voru gefnar eða vilyrðum getum við sagt, loforðum sem voru gefin í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2013 og þeim væntingum sem fólk hefur með réttu getað verið með gagnvart aðgerðum í þágu skuldsettra heimila í því augnamiði að draga úr einkum og sér í lagi húsnæðisskuldum heimilanna.

Hér kom aðeins fram í máli hv. þm. Péturs Blöndal að þessi leið með séreignarsparnaðinn væri dálítið öðruvísi, ef ég skildi hann rétt. Loforð, einkum og sér í lagi Framsóknarflokksins, í kosningunum gengu út á að taka inn í ríkissjóð verulegar tekjur í formi einhvers konar skatts eða taka af þeim sem kallaðir voru hrægammar til að afla fjár í aðgerðir í þágu heimilanna. Hér hafa linnulaust verið deilur um það hverju var lofað og hver upphæðin var. Það skiptir kannski ekki alveg öllu máli fyrir umræðuna en það er alveg ljóst að loforðin voru umtalsverð. Hvort 300 milljarðarnir sem stundum er talað um voru nákvæmlega sú upphæð sem nefnd var, ég geri ekki of mikið með það en auðvitað liggja fyrir yfirlýsingar núverandi ráðamanna í aðdraganda kosninganna hvað það varðar og það eru einfaldlega staðreyndir sem hægt er að fletta upp og á ekki að þurfa að vera að deila um.

En burt séð frá því var aldrei talað um það að hluti af þessum pakka væri fjármagnaður af fólkinu sjálfu. Þetta er auðvitað ekki annað en það að fólk er að fjármagna sjálft það að greiða niður skuldir sínar. Og svo má velta fyrir sér: Er það ekki alveg sjálfsagt mál, ef fólk á séreignarsparnað má það þá ekki nota hann til að lækka skuldir sínar? Þetta mál snýst um að veita því skattafslátt. Þess vegna má líka spyrja sig að því í framhaldi af ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan af hverju megi ekki nýta þegar áunninn séreignarsparnað til að greiða niður fasteignaskuldirnar. Ef fólk hefur verið að spara í formi séreignarsparnaðar og á séreignarsparnað sem það telur að það geti ráðstafað betur með því að taka hann út og greiða inn á skuldir, af hverju má þá ekki gera það í meira mæli en á þessu takmarkaða þriggja ára tímabili? Þetta er alla vega álitamál og spurning sem mér finnst sjálfsagt að velta upp og sérstaklega finnst mér að þeir sem standa fyrir þessu frumvarpi og styðja það eigi að svara því af hverju það mætti ekki, ekki síst í ljósi þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér fram, að það væri almennt jákvætt að lækka skuldabyrðina á þennan hátt. Þetta er innlegg í þessa umræðu.

Hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Willum Þór Þórsson, sagði í svari við andsvari af minni hálfu fyrr í dag þegar ég velti því fyrir mér hvort þetta væru í raun almennar aðgerðir af því að þær næðu ekki til allra, það væru mikilvægir hópar sem lægju óbættir hjá garði, þá orðaði hann það eitthvað á þá leið að þetta væru almennar aðgerðir gagnvart þeim sem þessar aðgerðir væru ætlaðar, þ.e. þetta væru almennar aðgerðir fyrir sértækan hóp. Nú er þetta vissulega nokkuð stór hópur en engu að síður eru mikilvægir hópar sem standa utan og kannski ekki síst þeir sem verst standa. Þá eru svörin sem við fáum í umræðunni þau að það séu mál sem við þurfi hugsanlega að skoða í framhaldinu. Þetta sé aðeins einn liður í að uppfylla þá þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér sl. sumar og það verði að skoða í framhaldinu hvernig eigi að mæta öðrum hópum. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar eru þeir nefndir, t.d. öryrkjar en stærsti hluti þeirra mun ekki á nokkurn hátt geta nýtt sér úrræði þessa frumvarps. Þar er vakið máls á málefnum námsmanna, launatekjur þeirra eru yfirleitt lágar og þeir sem eru að hefja nám um þessar mundir munu jafnvel alfarið missa af því að geta nýtt sér þessi úrræði og þeir sem hafa farið af vinnumarkaði til framhaldsnáms geta heldur ekki nýtt sér úrræðin á næstu árum.

Síðan eru málefni ellilífeyrisþega. Nú er það þannig að ellilífeyrisþegar geta verið með skuldsett íbúðarhúsnæði. Þeir munu ekki geta nýtt sér úrræðin. Ég veit ekki hverju menn í raun og veru svara öðru en því að það verði þá að skoða hvaða réttlæti er í því að fólk sem er við það að fara á eftirlaunaaldur og hefur verið að greiða séreignarsparnað og kannski eitthvað inn á þetta tímabil, að greiða séreignarsparnað, sem hér er undir en missir svo þann möguleika af því að það fer á eftirlaun, hvaða réttlæti er í því, hvaða jafnrétti er gagnvart þessum hópi? Mér finnst ekki nægilega sannfærandi þegar meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gefur í skyn í umræðunni að þetta sé eitthvað sem verði að skoða síðar. Það getur varla verið það sem fyrir núverandi ráðamönnum vakti þegar þeir voru að ræða þessi mál í aðdraganda kosninganna 2003 og vöktu væntingar hjá kjósendum. Það getur ekki verið. Mér finnst þessu ekki svarað á nægilega traustvekjandi hátt.

Í þessari umræðu hefur líka verið vakið máls á flutningi á skattbyrði á milli kynslóða. Nú hefur á undanförnum árum verið að ryðja sér í vaxandi mæli til rúms það sem kallað hefur verið kynslóðareikningar, þ.e. að menn geri þjóðhagsreikninga og fjármál hins opinbera upp á einhverjum kynslóðagrunni. Þetta er kannski ekki fullkomlega þróað kerfi en engu að síður er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar einstakar ákvarðanir í núinu hafa fyrir komandi kynslóðir og hvort menn eru að flytja til skattbyrði frá einni kynslóð yfir á aðra og í hve ríkum mæli. Menn verða að vera með augun opin gagnvart því sem þeir eru að gera í því samhengi. Ég tel til dæmis að málsvörn hv. þm. Péturs H. Blöndals í því efni haldi alls ekki. Ég er algerlega ósammála honum hvað það snertir af því að hann segir einfaldlega að sveitarfélögin, og væntanlega á það við um ríkið líka í hans huga, geti bara gætt meira aðhalds í rekstri þegar fram líða stundir. Þau hafa sýnt, sagði hv. þingmaður, að þau geta það og þess vegna munu þau örugglega geta það í framtíðinni.

Það liggur fyrir hér að ríki og sveitarfélög verða af verulegum tekjum miðað við óbreyttar forsendur upp á tugi milljarða kr. og það er engin smáupphæð sem þar er um að ræða. Þetta eru engir smápeningar sem hægt er að láta einhvern veginn gufa upp í útreikningum og excel-töflum til framtíðar Þetta eru verulegar upphæðir. Það er kannski þrennt sem þetta getur þýtt fyrir þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Það er í fyrsta lagi að það verði verulegur niðurskurður í samfélagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga sem afleiðing af þessum aðgerðum til lengri tíma litið, eða að þessir aðilar skuldsetja sig meira, eða að þeir auka tekjur sínar með annaðhvort skattahækkunum eða með hækkun á þjónustugjöldum. Það getur vel verið að það sé einhver slík leið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er að hugsa um að hljóti að verða ofan á, að þjónustugjöld hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, muni í framtíðinni þurfa að verða þeim mun hærri og hverjir þurfa að bera þau? Það eru þeir nýta sér þjónustu sveitarfélaganna, ef við tökum þau. Það eru auðvitað ekki síst barnafjölskyldur sem það mun lenda á, ekki síst barnafjölskyldur, hjá hinu opinbera í heilbrigðiskerfinu verða það gjarnan ellilífeyrisþegar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að um er að ræða flutning á skattbyrði milli kynslóða, hvernig sem á það er litið. Það þýðir það. Það þýðir að við erum að setja reikninginn inn í framtíðina.

Nú kann vel að vera að það sé að mati meiri hlutans verjandi við þær aðstæður sem nú eru uppi en hann verður þá líka að segja það. Hann má ekki skjóta sér fram hjá því að horfast í augu við þann raunveruleika og segja að þær aðstæður séu uppi að hans mati að þetta sé réttlætanlegt. Það finnst mér mjög mikill galli á þeirri leið og því frumvarpi sem er til umræðu, að hún leiði til þess að ríki og sveitarfélög verða af tekjum upp á nokkra tugi milljarða, eins og hefur verið farið yfir í umræðunni í dag, og breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarpið sem komu fram þegar málið var tekið út úr nefnd frekar auka það heldur en hitt.

Loks hefur verið fjallað um sparnaðinn. Ég sagði það í upphafi máls míns að ég teldi mikilvægt að efla sparnað í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt og ég tel reyndar að ef við horfum á þetta kerfi okkar í heild hafi skuldsetning heimila, og reyndar fyrirtækja, atvinnurekstrar en ef við horfum á heimilin sérstaklega, verið allt of mikil á undanförnum árum og áratugum jafnvel og ég er þeirrar skoðunar að verðtryggingin eigi mjög drjúgan þátt í því. Verðtryggingin er í mínum huga og hefur allan tímann verið eins og eitthvert deyfilyf. Hún virkar þannig að menn taka í raun lán fyrir hluta af lántökukostnaðinum, vaxtakostnaðinum og bæta því svo aftan við lánið þannig að greiðslubyrðin verði í augnablikinu, í núinu lægri en uppsafnað og þegar upp er staðið miklu meiri. Það gerir það að verkum að menn finna ekki alveg eins mikið fyrir hinum raunverulega kostnaði við skuldsetningu í augnablikinu en kostnaðurinn verður meiri þegar upp er staðið. Þetta virkar eins og deyfilyf. Ég er ekki í nokkrum vafa um að verðtryggingin hefur af þeim sökum orsakað að skuldsetning íslenskra heimila er meiri en ella væri. Menn geta velt því fyrir sér hvort það hefði komið í veg fyrir að sumir gætu komið sér þaki yfir höfuðið ef ekki hefði verið verðtrygging heldur óverðtryggð lán, hvort sem það eru fastir eða breytilegir vextir, þá hefði lántökukostnaðurinn verið hærri fyrir vikið og sum heimili hefðu hugsanlega ekki getað komið sér þaki yfir höfuðið sem þau hafa getað gert með verðtryggingunni. Ég skil alveg þau sjónarmið en ég er þeirrar skoðunar að þeim félagslega mismun ætti að mæta með öðrum hætti, til að mynda með auknum vaxtabótum eða húsnæðisbótum eða hugsanlega jafnvel niðurgreiðslu vaxta, einkum og sér í lagi í félagslega kerfinu, en ekki með þeirri almennu leið sem verðtryggingin er. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þær aðgerðir sem verið er að fara í núna, og það á ekki einungis við um þetta frumvarp heldur líka annað frumvarp sem er á dagskránni og verður væntanlega rætt á morgun og í framhaldinu, ég tel að það sé veruleg hætta á því að aðgerðirnar verði étnar upp á skömmum tíma og þær fuðri í raun og veru upp, ávinningurinn fuðri upp á verðbólgubáli. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á því að þeim pakka sem ríkisstjórnin er að setja inn í þingið núna skuli ekki fylgja raunverulegar áætlanir um afnám verðtryggingar, vegna þess að ég tel að það hefði mátt skilja það á máli núverandi meiri hluta að hann ætlaði sér að taka mikilvæg skref til að afnema verðbólguna. Ég velti því fyrir mér af hverju þau skref er ekki að finna hér og nú vegna þess að það er veruleg hætta á því að þær aðgerðir sem við förum í núna, þótt þær geti komið sér vel fyrir einstök heimili verðum við líka að horfa á heildarmyndina og þjóðarbúskapinn í heild og áhrifin þar á.

Hættan er auðvitað sú að verðbólgan fari af stað. Hættan er sú að vextir muni taka hér einhvern kipp þegar þessar aðgerðir hafa verið ákveðnar og að ávinningurinn sem menn hafa í raun og veru væntingar um muni brenna upp á verðbólgubáli. Ég verð að segja alveg eins og er að jafnvel þó að menn telji að þeir fái ávinning, að þeir geti nýtt sér aðgerðir af þessum toga til að greiða niður skuldir mun sá ávinningur étast upp á skömmum tíma og þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það sé þess virði að fara í þennan leiðangur.

Virðulegur forseti. Ég tel alla vega að það sé mjög eðlilegt að menn velti slíkum hlutum fyrir sér og ég er ekki alveg sannfærður um að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi náð utan um þetta mál, eins og ég er a.m.k. að hugsa það. Það getur vel verið að menn hafi velt þessu fyrir sér og ég efast ekkert um að margir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd hafa áhyggjur af þeim þætti. En mér finnst það ábyrgðarhluti að fara þá að afgreiða mál í gegn á þann hátt sem væntanlega stendur til, ef að líkum lætur, án þess að þessi heildarmynd sé höfð í huga og hún liggi fyrir ljós og menn viti nokkurn veginn, því að sumt geta menn ekki vitað nákvæmlega fyrir, hvernig hún mun þróast inn í framtíðina. Það er að minnsta kosti hagfræðilega séð engin bábilja að reikna með því að aðgerð af þessum toga hafi verðbólguhvetjandi áhrif og ef það leiðir til þess að ávinningurinn ést upp á skömmum tíma mundi ég ráðleggja mönnum að fara varlega og skoða þetta mál alveg til þrautar en ekki láta pólitísk loforð og slíkan metnað villa sér sýn og ráða för.