143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir prýðisræðu og vel ígrundaða. Ég er honum um margt sammála. Ég ætla að byrja á að segja það hér að ég deili skoðunum hans algjörlega hvað varðar verðtrygginguna og líkingunni við deyfilyf. Ég hef bæði vonir og væntingar um að þessu fylgi afnám verðtryggingar á húsnæðislán og vil spyrja hann út í það, hvernig hann sjái það fyrir sér. Ég bið hann að útskýra það betur. Hann kom reyndar örlítið inn á þann þátt hvernig mætti útfæra þær aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Fram kom í máli hv. þingmanns að hann telur jafnframt mikilvægt að efla sparnað í þjóðfélaginu almennt og að fólk leggi sitt af mörkum til að lækka skuldir sínar. Reyndar hefur borið á því hér í umræðunni að hv. þingmenn hafa verið að flækja saman þessum tveimur málum, annars vegar því sem er til umfjöllunar hér í dag, um séreignarsparnað til lækkunar húsnæðisskulda eða til húsnæðiskaupa, og hins vegar málinu sem er til umfjöllunar á morgun, sem er skuldaleiðrétting.

Hin spurningin til hv. þingmanns er hvort hann sjái fyrir sér einhverja aðra sambærilega leið, ef ekki þessa, og hvaða afmörkun hann mundi vilja sjá í því samhengi.