143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir greinargóð svör. Ég er ánægður að heyra að hann muni styðja okkur í því að ráðast gegn verðtryggingu á neytendalán, húsnæðislán.

Hv. þingmaður sagði að borið hefði á væntingum um loforð gagnvart leiðréttingum, með réttu, að þessi leið sé öðruvísi en þau loforð hafi gefið til kynna. Þannig að það komi skýrt fram þá var þessi leið hluti af aðgerðaáætlun okkar í kosningabaráttunni og við töluðum fyrir henni. Við töluðum jafnframt um að hér hefði orðið forsendubrestur sem fólst í því að saman fóru hrun á hagvexti, kaupmætti, aukið atvinnuleysi og aukin verðbólga; og það fór allt úr böndunum á sama tíma. Það hefur ekki gerst áður í sama mæli í hagkerfi okkar.

Við lofuðum að ráðast gegn þessu og erum nú að uppfylla þau loforð með þessum aðgerðum. Hv. þingmaður kom inn á þetta álitamál, að það væri réttmæt spurning að velta þessu upp. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann líti á forsendubrestinn og hvort hann telji ekki réttmætt að fara í aðgerðir til að ráðast gegn honum.