143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta. Fyrst aðeins varðandi það sem ég komst ekki að með áðan og varðaði spurningu hv. þingmanns og vangaveltur um kynslóðareikningana. Ég ræddi það aðeins að hugsunin um kynslóðareikninga hefði verið að ryðja sér talsvert til rúms þó að hún væri kannski ekki algjörlega fullhannað módel eða þess háttar.

Ég lagði áherslu á að menn gerðu sér grein fyrir því að með því að ríki og sveitarfélög yrðu af tekjum í framtíðinni yrði það ávísun á aukna skattbyrði eða aukin þjónustugjöld eða lakari þjónustu komandi kynslóða. Það væru þau áhrif sem menn yrðu að gera sér grein fyrir og vera að minnsta kosti meðvitaðir um ef þeir teldu réttlætanlegt, miðað við gefnar aðstæður í núinu, að leggja þær byrðar á næstu kynslóðir.

Að því er varðar aðra hópa þá lýtur gagnrýni okkar ekki síst að því að ríkisstjórnarmeirihlutinn talar mikið um að um almennar aðgerðir sé að ræða. Ef svo er skyldi maður ætla að þær verði þá að ná til allra hópa. Eins og hv. þingmaður gat um nýtast þessar aðgerðir ekki vissum hópum og hún spyr að því hvaða aðrar leiðir væru þá færar. Ég er þeirrar skoðunar að langbesta leiðin til þess að draga úr skuldsetningu og létta greiðslubyrði heimilanna í landinu væru stórauknar vaxta- og húsnæðisbætur. Ég tel að það mundi nýtast öllum hópum. Það eykur ráðstöfunartekjur og gerir mönnum þar af leiðandi kleift að nota auknar ráðstöfunartekjur til þess að greiða niður skuldir sínar (Forseti hringir.) ef þeir vilja það. Ég tel að það hefði verið langeinfaldasta og réttlátasta leiðin.