143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við ræðum nú um stærsta kosningamálið í síðustu kosningum og ég hygg að komið hafi fram áðan í andsvari að fólk blandaði saman þessum tveimur málum, annars vegar um séreignarsparnaðinn, að hægt væri að nota hann til að greiða niður húsnæðisskuldir, og hins vegar því menn kalla lækkun á höfuðstól skuldar sem verður til umræðu á morgun. Ég held að okkur hljóti að vera nokkur vorkunn að ræða þetta saman. Þessar aðgerðir voru boðaðar af miklum krafti fyrir kosningar og átti að vera mjög auðvelt að ráðast í þær eftir því sem sagt var þó að það hafi dregist, enda fundu menn út að þetta er ekki eins auðvelt mál og menn vildu vera láta.

Tillögurnar hafa verið kallaðar heimsmet af sjálfum hæstv. forsætisráðherra, að hér væri um heimsmet að ræða í því að koma til móts við skulduga þjóð og fólk sem skuldaði mikið í húsum sínum eða íbúðum. Það átti líka að vera þannig eftir því sem okkur skildist flestum fyrir síðustu kosningar að ekkert af því fé sem ætti að fara til þess að létta skuldir heimilanna, sem kallað var, ætti að koma úr ríkissjóði heldur ættu hinir svokölluðu hrægammasjóðir að standa undir því öllu saman. Fólki hefur þá ekki dottið í hug að það fengi að greiða þetta sjálft af sínum eigin eigum. Ég held að það hljóti að koma fólki nokkuð á óvart, en það er sem sagt þannig að í staðinn fyrir einhverja 300 milljarða sem talað var um að hægt væri að ná af hrægömmum til að greiða niður þessar skuldir þá á að verja til þess 150 milljörðum, held ég að sé rétt með farið hjá mér, á næstu fjórum árum og helminginn af því á fólk að borga sjálft.

Ég ætla svo sem ekki að eyða tímanum óskaplega mikið. Mér sýnist þetta snúast svolítið um hvort við veljum bestu leiðina, hvort við höfum efni á því að ráðast í þetta. Hefur þjóðin efni á því? Við fórum sérstaklega yfir þessar tillögur fyrr í dag, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerði það mjög vel að mínu mati. Hann fór yfir mismununina sem felst einmitt í þessu frumvarpi, hvernig það mismunar hópum, að þeir sem ekki skulda og hafa ekki tækifæri til að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir geta ekki nýtt sér það skattfrelsi sem í boði er. Þeir sem tóku út séreignarsparnaðinn á síðasta kjörtímabili í þeim miklu erfiðleikum sem þá voru geta ekki nýtt sér það skattfrelsi sem nú verður í boði. Það er mikil mismunun í þessu efni á milli hópa í þjóðfélaginu.

Við getum heldur ekki gleymt því og megum ekki gera lítið úr tilflutningi á fjármunum milli kynslóða. Sumir vilja gera lítið úr því en það er alveg ljóst að tekjutap ríkissjóðs á löngum tíma verður væntanlega 20–27 milljarðar og áhrif á sveitarfélögin verða 9–13 milljarðar. Ef það er reiknað upp með 3,5% ávöxtun fer það nálægt 70–80 milljörðum þegar tekið hefur verið tillit til þeirra breytinga sem nefndin lagði til við afgreiðslu málsins, þ.e. að hækka skattafsláttinn upp í 750 þús. kr. úr 500 þús. kr. sem það var áður.

Síðan getum við haft áhyggjur af því að séreignarsparnaðurinn er ekki aðfararhæfur en húsnæðið er það. Ég hef svo sem ekki áhyggjur af því en ég tel rétt að fólk verði upplýst um það, að fólk viti af því. Ef fólk veit af því tekur það bara sínar ákvarðanir eins og það vill, en það skiptir miklu máli að það geri sér grein fyrir þessu.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á það sem við ræddum áðan, hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég, um greiðslujöfnunarreikningana, en fyrstu greiðslur fara í að lækka þann reikning. Við getum ekki gert lítið úr því vegna þess að jafnvel þó að rétt sé að það lengist í lánunum, fólk borgar það sama, þá gerði það sér vonir um að greiða eftir 20–30 ár það verðbólguskot sem varð og sem það tók af með greiðslujöfnunarreikningunum. Þess vegna hlýtur þetta að koma því fólki á óvart.

En ég vil í lokin vara okkur aðeins við. Umræðan og lesturinn á rannsóknarskýrslunni um Íbúðalánasjóð rifjast upp fyrir mér vegna þess að það hefur verið mjög ofarlega í huga núna þegar ég les þessi nefndarálit og hlusta á ræður. Við áttum okkur á því að við vitum ekki nákvæmlega hver áhrifin af þessu verða. Það er alveg ljóst að þegar þær ákvarðanir voru teknar á Alþingi 2003–2004 um breytt húsnæðislánakerfi, þegar allir vildu gera vel, allir vildu veita lengri lán og hækka veðhlutfallið, það meintu allir vel, að afleiðingarnar voru ekki reiknaðar út. Það var ekki litið á það raunsæjum augum hvað það hafði í för með sér að hafa ekki uppgreiðsluákvæði á lánum þegar skipt var yfir á milli kerfa. Það er þess vegna og það er mér mjög ofarlega í huga þessa dagana að við lærum af fortíðinni og vöndum okkur við það sem verið er að gera og látum ekki viljann til þess að gera vel við fólk verða til þess að við hleypum af stað enn einni vitleysunni.