143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir prýðisræðu. Hún kom inn á marga þætti sem hafa ræddir verið hér í dag, m.a. þær tekjur sem ríki og sveitarfélög fara á mis við. Ég veit ekki, kannski misskildi ég hv. þingmann en ég vil bara ítreka að það er ekki farið í grafgötur með það í nefndaráliti, í framsögu eða í umfjöllun meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að vissulega eru metnar þær fjárhæðir sem við köllum fórnaðar tekjur og fjárhæðirnar tilgreindar, reyndar á núvirði.

Hv. þingmaður kom inn á það að það mætti gefa sér 3,5% ávöxtun á þessar fjárhæðir í 40 ár fram í tímann og er það vissulega gert í minnisblaði til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Vissulega verður sparnaður í eignum íslenskra heimila á móti, þar verður líka til ávöxtun á sama tíma. Þar myndast séreign sem nýtist fólki væntanlega á efri árum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann vill meta þá ávöxtun. Hvaða prósentu ætlar hv. þingmaður að setja á þá eign sem myndast á móti? Ef við byrjum á þeirri spurningu.