143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara í bókhaldsæfingar við hv. þingmann. Það er alveg hárrétt að getið er um þessa útreikninga í nefndarálitinu. Þar segir að tekjutap ríkissjóðs verði 17–23 milljarðar og eftir hækkun 20–27 milljarðar. Síðan segir að áhrif á sveitarfélögin verði 9–16 milljarðar. Það eru mjög háar upphæðir. Ég sagði: Ef reiknuð er 3,5% ávöxtun þá hækkar þetta eitthvað. Það er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir einhverri ávöxtun. Ég segi hérna 3,5% vegna þess að sú tala er á minnisblaði. Ég held að hún hafi örugglega verið reiknuð út í fjármálaráðuneytinu, ég gef mér ekkert þá tölu.

Hvort ávöxtunin á það sem greitt er niður verði jafn há ávöxtun treysti ég mér ekki til að segja fyrir um. En mér finnst rétt að menn geri sér grein fyrir því að það er einhver ávöxtun af þessu fé og er það ekki þannig að lífeyrissjóðirnir reikna 3,5% ávöxtun? Þess vegna er kannski ekki óeðlilegt að nota þá tölu í þessu dæmi. Hvort heimilin ná því? Kannski ná þau meira og þá verður hallinn í hina áttina. Ég skal ekki um það segja. En hv. þingmaður veit alveg eins vel og ég að það er ekkert óeðlilegt að gefa upp eitthvert bil, (Forseti hringir.) engin ávöxtun, 3,5% ávöxtun, einhvers staðar á því bilinu.