143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir mjög greinargott svar. Við erum algerlega sammála. Ég vildi aðeins draga það fram hina hliðina á málinu, það verður eign á móti. Það er ekki eins og þetta verði hrein útgjöld, eins og einhverjir hv. þingmenn hafa viljað vera láta en það er auðvitað gjarnan þannig í pólitík þegar verið er að halda sjónarmiðum á lofti.

Annað í þessu er að þegar við erum að tala um þær tekjur sem ríki og sveitarfélög fara á mis við þá eru ríki og sveit auðvitað ekkert annað en íbúarnir sem mynda það samfélag og betur settir íbúar sem skulda minna hljóta að vera betur í stakk búnir til að takast á við skakkaföll í framtíðinni og hlúa betur að þeirri kynslóð sem verið er að ýja að að taki við reikningnum. Það hlýtur líka að mega koma fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún deili ekki þeirri skoðun að það megi horfa á þá hlið mála. Hv. þingmaður kom inn á aðfararhæfi og að séreignarsparnaður væri ekki aðfararhæfur. Það er vissulega rétt og það á að taka vel fram í umræðunni að það eru einstaklingar, fjölskyldur, heimili sem eru þannig í sveit sett að þau verða að ígrunda vel og fá ráðgjöf um það hvort skynsamlegt sé að taka séreignina ef skuldirnar eru það miklar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það eigi að ræða.