143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt. Ég tók einmitt eftir því að hv. þingmaður orðaði það einnig þannig í dag að sveitarfélögin væru við, fólkið í sveitarfélögunum, og að ríkið væri við, fólkið í ríkinu. Það er alveg hárrétt. Þess vegna er það svo að við þurfum að standa undir þessu. Ef tekjutapið verður það miklu lægra í framtíðinni af því að við erum núna að eyða þessum peningum til að greiða niður skuldir og erum að færa peningana til okkar þurfa þau sem ekki fá peningana að standa undir þeim. Ég held því miður að það verði ekki þannig að þessar ráðstafanir verði til þess að við getum eitthvað aukið þannig að það vegi upp á móti því sem við erum að taka frá komandi kynslóðum. En vonandi gerist eitthvað annað. Vonandi getum við bætt lífið í landinu, fyrirtækin, vonandi gerist það. En það er annað mál en þetta. Við erum að taka peninga úr framtíðinni til okkar hingað. (WÞÞ: Ávöxtuð eign á móti.)

Virðulegi forseti. Ég hef orðið. Ég er ekki sammála því að sú eignamyndun sem verður núna verki á þá hringrás að við komum út á sléttu, alls ekki.