143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki verið alveg nógu skýr í máli mínu áðan. Það sem vekur mig til umhugsunar um þessar tillögur núna og rifjar upp það sem fjallað var um í rannsóknarskýrslunni um Íbúðalánasjóð er að teknar voru að mínu mati mjög óábyrgar ákvarðanir á Alþingi um að breyta alveg um kerfi án þess að hlutirnir væru í lagi. Það var t.d. ákveðið að skipta úr húsbréfakerfi yfir í íbúðalánabréf, held ég að það hafi örugglega heitið, án þess að vera með nokkurt uppgreiðsluákvæði þar í. Það hefur náttúrlega kostað Íbúðalánasjóð mikið og hefur enn kostnað í för með sér fyrir okkur og mun kosta okkur eitthvað áfram. Það er meira að segja eitt af því sem menn hafa áhyggjur af í þessum tillögum hér að muni auka enn á þennan vanda. Það er aðallega það sem ég var að tala um, þ.e. hvernig staðið er að málinu. Ekki var kannað nógu vel hvað hlutirnir hefðu í för með sér á sínum tíma og vilji var fyrir því á Alþingi að gera eitthvað sem væri gott fyrir fólkið; löng lán, hátt veðhlutfall og eitthvað slíkt, en mér finnst að það hafi yfirgnæft varkárnina sem þurfti að vera til staðar.

Hvað varðar allar tillögurnar sem lagðar voru fram þá þekki ég þær ekki í smáatriðum eins og hv. þingmaður, sem ég held að hafi setið í verkefnissnefnd. Margt af því líst mér vel á, annað er ég dauðhrædd við og þarf að skoða mun nánar áður en ég mynda mér einhverja skoðun á því. En margt er mjög gott og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að jafna aðstöðumun á milli fólks varðandi leigubætur, vaxtabætur og hvað það heitir allt saman.