143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur prýðisræðu, hárbeitta. Það eru nokkrir skemmtilegir frasar sem hafa flogið eins og jóðsóttin og músin og fleiri góðir.

Hv. þingmanni var tíðrætt um þennan kynslóðareikning og þá er að skilja á hv. þingmanni að þetta séu bara útgjöld, þær tekjur sem ríki og sveitarfélög fara á mis við og sannarlega var farið hér yfir, bæði hafa margir hv. þingmenn farið yfir það í dag í prýðisumræðu og sá er hér stendur fór það yfir í framsögu en tók til í nefndaráliti núvirtar fjárhæðir og nefndi það auðvitað að hægt er að reikna þetta ein 40 ár fram í tímann og finna á það einhverja áherslu sem vissulega er gert í minnisblaði til nefndar.

Ég vil hins vegar koma því að að það gleymist alltaf að það myndast eign á móti vegna þess að ríki og sveitarfélög eru ekkert annað en íbúandi sem myndar þessar einingar. Það gleymist alltaf að tala um þá eign sem myndast á móti og minna skuldsettar fjölskyldur hljóta að vera betur settar til að takast á við skakkaföll framtíðarinnar og ala upp þá kynslóð sem hv. þingmaður að vitnar til. Ég heyrði á hv. þingmanni að hann væri hlynntur því að hvetja til sparnaðar. Getum við þá ekki verið sammála um að þetta er sparnaðarhvetjandi aðgerð og geti líka virkað í hina áttina?