143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að 110%-leiðin sneri að því að viðurkenna það að skuldir yfir veðsetningu væru ónýtar svo þær eru held ég ekki undir í þessari umræðu, þetta var bara að viðurkenna staðreyndir. Þessi mál snúast alltaf um forgangsröðun og hvernig við viljum verja fjármunum ríkissjóðs, hvort sem er með skattafslætti, afsöluðum tekjum til framtíðar eða með beinum framlögum í einhverjar aðgerðir. Mér finnst þetta mjög ómarkvisst og það ætti að greina þennan hóp miklu betur og vera ekki að dæla fjármunum til þeirra sem þurfa ekki á því að halda. Það segir sig sjálft að þeir tekjuhærri geta haft möguleika á að leggja til hliðar en þeir tekjulægri hafa ekki svigrúm til þess og þá erum við að beina afslætti og töpuðu fé ríkisins til framtíðar í formi skatta til tekjuhás fólks. Mér finnst það rangt. Ég vil sem jafnaðarmanneskja og félagslega sinnuð að samfélagið styðji við þá sem þurfa á því að halda en að aðrir bjargi sér sjálfir. Við eigum ekki að beina stuðningi ríkisins til þeirra hópa sem sannarlega geta séð um sig sjálfir. Það er að minnsta kosti mitt mottó.

Við eigum að grípa þá sem einhvers staðar á lífsleiðinni falla niður á milli í erfiðum aðstæðum og samfélagið á allt að vera tilbúið til að styðja við þá, enginn veit hvenær hann lendir í þeirra sporum. En við eigum ekki að vera að moka fé að óþörfu til þeirra sem ekki þurfa á því að halda. Og ég spyr (Forseti hringir.) hv. þingmann: Út af hverju fór ekki fram skýrari greining á því hvaða hópar mundu falla undir þetta og þá sett einhver tekjumörk?