143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:43]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talaði um að þeir sem þessi leiðrétting nær til — sem er valfrjáls, einstaklingar ráða því hvort þeir taka þátt í aðgerðunum — ráði vel við að greiða af skuldbindingum sínum og þess vegna ætti að setja efasemdarmerki við aðgerðirnar. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að það sé algild regla að þeir sem aðgerðir ná til ráði vel við skuldbindingar sínar. Þeir einstaklingar sem ég hef hitt fagna þessari aðgerð og fagna því að verið sé að gera eitthvað fyrir þá hópa sem urðu út undan í fyrri aðgerðum. Hér er ég ekki að tala um hátekjufólk heldur er ég að tala um grunnskólakennara, hjúkrunarfræðinga, iðnaðarmenn. Þetta eru einstaklingar sem ég þekki vel og einnig fólk sem ég hef hitt vegna starfsins míns. Þessir aðilar fagna þessu allir vegna þess að staða þeirra hefur verið erfið undanfarin ár. Þau segja manni sögu sína. Þau tóku lán. Greiðslubyrði lánanna hefur hækkað og þau, á þessum launum sínum, eiga erfitt með að ná endum saman og hafa alltaf fengið þau svör að þau eigi að bjarga sér sjálf. Er rétt að segja við þetta fólk: Bjargaðu þér sjálf áfram, reyndu bara að redda þér?