143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vandinn við þessi mál öll að ekki er búið að greina þessa hópa. Það er ekki hægt að segja bara: Við viljum hjálpa fólki. — Við verðum að greina hvar vandinn liggur til að einangra þann hóp sem virkilega þarf á aðstoð að halda.

Ég tel að það sé hópur í þjóðfélaginu sem þurfi á aðstoð samfélagsins að halda, í formi skattafsláttar eða í stuðningi með sérstökum vaxtabótum, sem ég tel miklu skilvirkari leið, og hafi sýnt sig á síðasta kjörtímabili að nýttist fólki mjög vel. Þar var miðað við eignamörk, að þeir tekjuhæstu með miklar eignir fengju ekki þessar sérstöku vaxtabætur heldur þeir sem þurftu á því að halda. Þannig vil ég sjá að menn beini aðgerðum sínum markvisst til þeirra hópa sem þurfa á aðstoð að halda.

Ég efast ekki um að til séu mörg heimili og margt fólk sem er með miðlungstekjur, grunnskólakennarar, iðnaðarmenn og allt mögulegt, sem mundi falla undir þann hóp sem þyrfti meiri aðstoð. En út af hverju að láta alla fljóta með í leiðinni og eyða þannig fjármunum ríkisins óvarlega til þeirra sem þurfa ekkert á því að halda? Við vitum vel að þegar svona er í boði þá slær fólk ekkert hendinni á móti því. Einhver spurði í dag hvort þetta væri ekki bara gott mál; minni hætta væri þá á skattsvikum, að fólk mundi nýta peningana sína til sparnaðar frekar en að svíkja undan skatti. Guð minn góður, eru þetta nú orðin rök í málinu?