143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég fæ oft þá spurningu hvort ríkisstjórnin ætli ekkert að gera fyrir aldraða og öryrkja. Við skulum aðeins rifja upp þá sögu.

Þann 4. júlí 2013 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum um almannatryggingar og lög um málefni aldraðra sem fólu í sér miklar kjarabætur fyrir aldraða og sömuleiðis öryrkja. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkaði úr 480 þús. kr. á ári í 1,3 milljónir á ári, þ.e. sem samsvaraði hækkun frítekjumarks úr 40 þús. kr. á mánuði í tæpar 110 þús. kr. Frítekjumarkið er nú hið sama og gildir gagnvart atvinnutekjum örorkulífeyrisþega og frítekjumark þeirra er með sömu lögum framlengt út árið 2014.

Tilgangur með þessu er fyrst og fremst sá að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja og eldri borgara til að auka lífsgæði þeirra og nýta krafta þeirra sem vinnuafls.

Þá er í lögunum kveðið á um að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafi ekki lengur áhrif á greiðslu elli- og örorkulífeyris, þ.e. hins svokallaða grunnlífeyris. Þetta er afar mikilvægt, en allt fram til 1. júlí 2009 gilti sú regla að lífeyristekjur höfðu engin áhrif á útreikninga grunnlífeyris almannatrygginga.

Þessar lagabreytingar sem tóku gildi 2013 leiddu til mjög bættra kjara eldri borgara, bætur hækkuðu jafnvel hjá 7 þús. manns, þar af fengu tæplega 2.500 lífeyrisþegar sem misstu bætur í kjölfar sparnaðaraðgerða í lok árs 2009 rétt til bóta á ný. Því til viðbótar er áætlað að enn aðrir, tæplega 5 þús. manna hópur fólks sem vegna tekna sinna hefur enn ekki getað talið sig eiga rétt til bóta frá árinu 2009, vegna þeirra breytinga sem nú eru gerðar, geti sótt um greiðslur að nýju.

Það er því augljóst að bætur og tekjur elli- og örorkulífeyrisþega í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa tekið miklum hækkunum og eru til mikilla bóta. Ríkisstjórnin og við erum rétt að byrja á þeirri vegferð að auka og bæta lífsgæði eldri borgara og örorkulífeyrisþega.