143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hægt að byrja á því að taka undir með síðasta hv. ræðumanni um verklagið hér í þinginu síðustu dagana. Það er ákaflega mikilvægt að við vöndum vel til verka og gætum þess að hér verði ekki mistök við lokaafgreiðslu og fullnaðarfrágang mála.

Nú er ár liðið frá þingkosningum og það er orðið býsna augljóst að hvorki gengur né rekur í því verkefni að losa um gjaldeyrishöftin. Mikilvægasta og brýnasta hagsmunamáli Íslendinga, því að brjótast út úr gjaldeyrishöftunum, miðar ekkert þrátt fyrir býsna stórkarlalegar yfirlýsingar forsætisráðherra í þeim efnum í aðdraganda kosninga.

Ég tel orðið einsýnt að ríkisstjórnina skorti aðstoð í þessu efni og að mikilvægt sé að við fáum í þetta flókna og mikla hagsmunamál okkar Íslendinga erlenda sérfræðinga okkur til halds og trausts og sameinumst um það, stjórnmálaflokkarnir hér á Alþingi, að finna slíka erlenda sérfræðinga sem allir stjórnmálaflokkar, stjórn og stjórnarandstaða, geta treyst og sem full samstaða er um.

Eins og ég hef ítrekað sagt úr þessum ræðustól eru gjaldeyrishöftin hagsmunamál af þeirri stærðargráðu að hér í þinginu verðum við öll að standa saman sem einn maður í þeim mikilvægu og erfiðu samningum sem við þurfum að eiga í. En til þess þarf ríkisstjórnin að hafa forustu um samtal. Ríkisstjórninni hefur á þessu fyrsta ári ekki tekist að ræða við stjórnarandstöðuna hér í þinginu og ná samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um heildstæða áætlun um það hvernig við ætlum að brjótast út úr þessu.

Úr því að það hefur ekki tekist á fyrsta árinu held ég að full ástæða sé til þess að við leitum til erlendra sérfræðinga sem við öll getum treyst og fáum þá til að vinna með okkur heildstæða áætlun (Forseti hringir.) sem við öll getum fylkt okkur að baki og unnið þessu stærsta hagsmunamáli Íslands það gagn sem okkur ber.