143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hv. þingmaður þekkir lífeyrissjóðakerfið mjög vel, enda hefur hann alla vega margra ára ef ekki áratuga reynslu af því að stýra væntanlega einum stærsta lífeyrissjóði landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og talar af þekkingu um þessi mál. Ég er sammála hv. þingmanni og mér finnst okkur vanta í umræðuna að það er skynsamlegt og í rauninni langbesti sparnaðurinn sem við getum farið í, almenningur í þessu landi, að greiða niður skuldirnar okkar.

Það er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður vísaði til, þegar landið er svona lokað og við erum með lífeyrissjóðina sem fjárfesta gríðarlega mikið, eins og þeir þurfa, að það verða ekki sérstaklega góðir fjárfestingarkostir. Það er gríðarleg hætta á bólumyndunum alls staðar, hvort sem það eru hlutabréf, fasteignamarkaðurinn eða hvað það nú er sem fjárfest er í í landinu. Það að það sé bóla þýðir að hún mun springa og það þýðir að fjárfestingarnar okkar þar, hvort sem þær eru í lífeyrissjóði eða annars staðar, munu ekki bera þann ávöxt sem menn vonast til.

Við þekkjum það, Íslendingar, að eignir geta horfið á einni nóttu þess vegna, en skuldirnar eru til staðar. Það væri alveg sama þótt allt væri hér eðlilegt, það væri samt mjög erfitt ef ekki ómögulegt að ná upp í þá prósentu, þá kostnaðarprósentu í séreignarsparnaði sem er í skuldunum okkar.

Þannig að mér þykir gott að heyra þessa skynsemisrödd í umræðunni. Það er enginn vafi á því að það er bæði þjóðhagslega hagkvæmt að tappa af fjárfestingu lífeyrissjóðanna og sömuleiðis, eins og hv. þingmaður nefndi, skynsamlegt fyrir einstaklinga að greiða niður skuldir sínar.