143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg rétt, það eru skynsemisrökin að fólk búi rúmt með mörg börn og minnki við sig þegar líður á ævina og börnin eru farin að heiman. Ég hefði reyndar viljað hafa þetta öfugt. Ég var tilbúinn til að búa tiltölulega þröngt ungur og með börn en vil hafa það sæmilega rúmt til að geta tekið á móti börnum og barnabörnum í ellinni. Ég hef alltaf haft þessa (Gripið fram í.) formúlu. Það sem við viljum öll er að koma hér á kerfi sem tryggir einstaklingunum og fjölskyldum öryggi í ellinni. Nú erum við að ræða með hvaða móti við gerum það best.