143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg spurning sem við stöndum frammi fyrir núna, hvernig við ætlum að tryggja rétt þeirra sérstaklega sem hafa litlar tekjur til að komast í öruggt húsnæði. Það er umræða sem við þurfum að taka nú á næstu mánuðum. Ég er ekki alls kostar ánægður með þær tillögur sem kynntar voru hér á dögunum. Ég tel að inn í þær vanti hinn félagslega þátt á sama tíma og ég óttast að menn séu að draga úr þeim félagslegu þráðum sem þó eru til hjá Íbúðalánasjóði. Við þurfum að gæta mjög vel að þessu. Ég tel þetta vera eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna.

Um framtíð þessa finnst mér mjög mikilvægt að ríki sátt. Við höfum fengið núna að heyra frá lífeyrissjóðunum sem eru að gagnrýna þetta einhverjir, forsvarsmenn einhverra lífeyrissjóða hafa komið fram og gagnrýnt fyrirkomulagið. Það er ástæðan fyrir því að ég tel það gagnrýnisvert hve seint þetta kemur fram, vegna þess að sú umræða þarf að sjálfsögðu að fara fram. Lífeyrissjóðirnir eru aðilar að þessu kerfi sem varð til upp úr samningum ríkis, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. Það var ein ástæðan fyrir því að ég rakti tilurð þessa kerfis frá kjarasamningunum 1969 og síðan löggjöfinni sem byggir á þeim 1974. Það er sá þáttur sem ég gagnrýni einna helst, en ég er að lýsa minni skoðun á þessu fyrirkomulagi. Ég tel heppilegt að færa hluta af sparnaði mínum og annarra inn í varanlegra form en gerist hjá lífeyrissjóðunum. Eins og (Forseti hringir.) við höfum fengið að kynnast allt of vel, þá er það ekki í hendi sem þar er geymt.