143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er hlutur sem er óræddur, hvernig við förum að því að styrkja hinn félagslega þátt húsnæðiskerfisins. Nú vil ég taka eitt mjög skýrt fram. Við erum að tala um einn anga af mjög stórri mynd. Inn í þá mynd vantar mjög stóra hópa; þá sem eru ekki að safna séreignarsparnaði, þá sem standa utan vinnumarkaðar, þá sem hafa minnstar tekjur. Alvarlegasta gagnrýnin sem fram hefur komið á þær kerfisbreytingar sem eru í umræðu í þinginu núna er ekki endilega fólgin í þeim frumvörpum sem hér eru á borðum okkar, heldur í því sem vantar, vegna þess að það eru þessir þættir allir sem enn skortir á. Að mínum dómi er því óábyrgt að fara fram með hluta af (Forseti hringir.) heildarlausninni án þess að ég sé þar með að mæla gegn ýmsum þáttum sem hér á að taka á eins og því frumvarpi sem við (Forseti hringir.) erum núna að ræða.