143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fróðlega framsögu. Ég ætla aðeins að fara yfir tölurnar varðandi kostnað sveitarfélaganna, sem hann gerði að umtalsefni.

Tölurnar sem við höfum fengið í efnahags- og viðskiptanefnd voru þessar: Án þeirrar ávöxtunar sem verið var að tala um mundi þetta kosta 9 til 13 milljarða sem mundi dreifast á 40 ár, en með ávöxtun, sem væri 3,5%, mætti segja að þetta væru 17 til 23 milljarðar, en skuldir heimilanna mundu lækka án ávöxtunar um 65 til 88 milljarða. Ég gef þetta bil af því að þetta er mismunandi, menn eru ekki alveg vissir um sviðsmyndir. En talið er að það geti orðið allt frá 65 til tæplega 90 milljarða lækkun á skuldum heimilanna í þessu sveitarfélagi. Ef við værum með vexti á því væri það 117 til 163 milljarða lækkun á skuldum heimilanna.

Fyrir útgjöld í sveitarfélaginu með hæstu tölum sem ég get fundið út úr þessu nema 23 milljörðum, en hæsta sambærilega lækkun á skuldum heimilanna eru 163 milljarðar. Er ekki gott fyrir sveitarfélagið það sem er gott fyrir heimilin? Er ekki gott fyrir heimilin að lækka skuldirnar? Og er það þá ekki gott líka fyrir sveitarfélagið? Vill ekki sveitarfélagið það besta fyrir íbúana? Og væri ekki gott fyrir sveitarfélagið að þiggja þetta? Vegna þess að ríkið er að leggja til, eins og hv. þingmaður hefur líka bent á, og þá er verið að tala um ávaxtaðar tölur, allt að 49 milljarða sem renna þá til heimila í þessu sveitarfélagi. Ef ég væri að stýra þessu sveitarfélagi mundi ég nú bara þiggja þetta. En hv. þingmaður?