143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:27]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég heyri að hann deilir áhyggjum mínum af skuldsettum heimilum og skuldsettum sveitarfélögum. Það voru nú að berast fréttir af því að útlit væri fyrir að skuldir níu stærstu sveitarfélaganna fari óðum lækkandi, það ber að fagna því.

Varðandi þessar vangaveltur, hvort sé betra og hvort sé brýnna, að lækka skuldir heimilanna í sveitarfélögunum eða sveitarfélaganna sjálfra, þá hallast ég að því að heimilin beri oft hærri vexti, vaxtabyrði þeirra sé hærri en sveitarfélaga, opinberra aðila, og það sé nú kannski snjallt ef þau eru mjög skuldsett að byrja þar.

Að öðru. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áttað sig á því að í þessari aðgerð, sem er hvati til að beina séreignarsparnaði ekki inn í séreignina heldur inn í þá eign sem er til lækkunar á skuldum sem liggur á húsnæðinu, felst tiltölulega örugg ávöxtun. Þú ert að minnka þá vexti sem þú ert að greiða, þeir eru nokkuð vel þekktir, það eru engar efasemdir um að þú ert að spara þér 4% raunvexti yfirleitt á línuna. Það er mjög örugg og trygg fjárfesting og ávöxtun.

Hins vegar blasir mikill vandi við lífeyrissjóðum sem þurfa að fjárfesta á hverju ári fyrir 100 til 120 milljarða, að finna eitthvað sem gefur svona góða ávöxtun. Það er ekki hlaupið að því innan hafta nema einhverjar bólueignir sem maður hefur stöðugt meiri áhyggjur af. Er þetta ekki nokkuð skynsamleg ráðstöfun, núna meðan höftin eru, að létta á þessum vanda lífeyrissjóðakerfisins? Það eru einhverjir tugir milljarða sem hann minnkar við þetta árlega næstu þrjú árin. Getur hv. þingmaður ekki fallist á að þetta sé jákvæð afleiðing?