143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins að þessu síðasta. Maður þyrfti nú kannski meiri tíma í að ræða þetta ef út í það er farið, mér finnst þetta of grunn umræða sem menn eru með hér. Bara með því að draga úr því sem er í ávöxtun hjá lífeyrissjóðunum leysist þessi vandi.

Ef við ættum að hvetja til sparnaðar almennt í landinu þá þarf það fé einhvers staðar að komast í ávöxtun. Jú, vissulega er hægt að borga niður skuldirnar á íbúðarhúsnæðinu, (Gripið fram í.) það er ágætisávöxtun. En þarf endilega að gera það með 40% meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum (Gripið fram í.) eins og hér á að fara að gera? Ja, það er nú talsverð gulrót, það er nú svona rúmlega hvati mundi ég segja, hv. þingmaður.

Ég er auðvitað sammála því og hef hegðað mér í samræmi við það sjálfur að ef maður er kominn í sitt eigið húsnæði er ekki til betri fjárfesting en að borga niður á því skuldirnar, enda gerði ég það, borgaði samviskusamlega niður, og við fjölskyldan, skuldirnar okkar á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar var að skuldsetja sig sem aldrei fyrr á árunum fyrir hrun. Auðvitað hefur maður aldrei tekið skynsamlegri ákvörðun, ég er ekkert að segja að ég taki þær almennt mjög margar slíkar.

Ég tel gott að skuldir sveitarfélaganna fara lækkandi, nema hvað? Við settum fjármálareglur á sveitarfélögin vegna þess að þau voru orðin svo hættulega skuldsett, hvert á fætur öðru, og þar á meðal flestöll stóru sveitarfélögin í landinu, nema helst Akureyri, að af því höfðum við verulegar áhyggjur. Það má væntanlega fara að upplýsa það nú að það var hálfgerð gjörgæsla í ónefndu ráðuneyti á árunum 2009 og 2010 út af sveitarfélögum sem við vorum logandi hrædd um að kæmust í vanskil og yrði greiðslufall hjá. Það hefði auðvitað haft slæm áhrif, næstum því jafn vond eins og að ríkið sjálft lendi í greiðslufalli, að stór sveitarfélög geri það. Því tókst sem betur fer að afstýra, en sveitarfélögin hafa orðið að halda að sér höndum og fjárfesta lítið og þurfa að greiða niður skuldir sínar bara til að uppfylla fjármálareglurnar innan 10 ára.

Vandinn við þetta er sá að umræðan hefur verið rekin á þessum nótum sem raunin er, og Framsóknarflokkurinn er ekki saklaus af því, frú forseti. Fyrst var þetta nú nánast eins og skuldir gætu bara horfið, (Forseti hringir.) það byggi hér einhver yfir töfrasprota sem gæti bara sagt hókus pókus og skuldirnar hyrfu. Nei, svo í næstu umferð var sagt: Við látum þær hverfa með því að taka (Forseti hringir.) peningana frá erlendum hrægömmum. En niðurstaðan liggur hér á borðinu í tveimur frumvörpum og það eru ríki og sveitarfélög sem eiga að borga hverja einustu krónu. (Gripið fram í.)