143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil enduróma nokkuð þau upphafsorð sem síðasti ræðumaður hv. Steingrímur J. Sigfússon fór með og lýsa furðu minni á því að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, láti ekki sjá sig við þessa umræðu. Þetta er stóra kosningaloforðið þeirra. Það er rætt hér og þeir sýna sig ekki.

Það er eiginlega ekki hægt að kalla þetta neitt annað, held ég, en móðgun við okkur þingmenn því að það er ekki eins og að þetta sé eitthvert léttmeti sem er á ferðinni. Ég vildi byrja á því að nefna það.

Ég vil líka taka upp þráðinn og vitna til þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir áðan og lýsti svo ágætlega, að við greiðum í lífeyrissjóði og að honum þætti það góð tilhögun fyrir fólk, ég veit ekki hvort hann var að tala um sig, að lækka skuldir sínar nú og eiga þá skuldlaust eða minna skuldsett húsnæði þegar það kemst á efri ár. Þess vegna væri ágæt leið að heimila fólki að færa séreignarsparnaðinn á milli og yfir í annan sparnað sem er þá húsnæði.

Það má út af fyrir sig alveg fallast á að það geti verið hið ágætasta mál, en mér finnst það sem við erum að ræða ekki alveg snúast um hvað sú ráðstöfun er skynsamleg, heldur snýst þetta einnig um að gefinn er skattafsláttur af því að gera þetta og það er þá afsláttur í hæsta skattþrepi sem fólk er í, það er afslátturinn sem það fær. Þá er alveg ljóst til að byrja með að þeir sem hæstar hafa tekjurnar og hæsta greiða skattana fá mestan afslátt eða mesta eftirgjöf af því sem þeir þyrftu ella að borga ríkinu. Ég veit að þá koma þingmenn og segja að það sé eðli þrepaskattsins og náttúrlega einnig þess að skattar eru hlutfallslegir. Auðvitað er það þannig.

Það sem við hin erum hins vegar að reyna að segja, eða það sem ég vil reyna að koma á framfæri er að í aðgerðum sem þessum á fyrst og fremst að horfa til þeirra sem eiga erfiðast og til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Það er ekki gert með þessum ráðstöfunum og það finnst mér alvarlegt.

Í framhaldi af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom með um að færa þetta fé út úr lífeyrissjóðakerfinu og inn í nútíðina og inn í heimilin núna hafa sprottið umræður um að það sé mjög skynsamlegt vegna þess að út af gjaldeyrishöftum og þeim þrengingum sem hér eru hafi lífeyrissjóðirnir ekki haft tækifæri til að fjárfesta eins og skyldi, því sé þetta besta leiðin til þess að minnka þrýstinginn, koma í veg fyrir bólumyndun, held ég að menn nefni, og fleira þar fram eftir götunum.

Virðulegi forseti. Það má líka vel vera að svo sé, en þetta er allt saman aukaafurð, ef ég má kalla það svo. Þetta er aukaafurð af þeim ráðstöfunum sem hér er farið í í hinum miklu loforðum ríkisstjórnarinnar um að létta byrði fólks vegna skulda af fasteignum, sem kemur síðan í ljós að við eigum að fá að borga sjálf og svo eiga að koma peningar beint úr ríkissjóði, sem er í frumvarpinu sem við ræðum á morgun.

Mér finnst svolítið eins og menn séu að reyna að finna hvað sé gott við þetta. Það má alveg vera að það sé gott að fólk geti fært séreignarsparnaðinn inn í nútíðina og sparað í húsnæði. Það er gott að það létti þrýstingi á lífeyrissjóðunum, en það er ekki það sem við erum að tala um. Það sem við erum að tala um í þessu frumvarp þar sem á að gefa fólki skattafslátt af því að nota séreignarsparnaðinn sinn í húsnæði er að fólki er mismunað. Þeir sem ekki eiga séreignarsparnað, sem ekki geta aflað sér séreignarsparnaðar, lífeyrisþegar, atvinnulausir, öryrkjar, það fólk getur ekki fengið þennan skattafslátt sem vissulega skiptir þá sem eru í hæsta skattþrepi gífurlega miklu máli.

Það er einmitt þetta sem einkennir svo mjög þá ríkisstjórn sem nú er við völd, að þeir sem verst hafa það eru yfirleitt skildir eftir, ef svo má að orði komast. Stundum finnst manni eins og þeir sem eru í forustu ríkisstjórnarinnar hafi enga tilfinningu fyrir því að kjör fólks í landinu eru misjöfn. Þá segi ég það sama og ég heyrði hv. þm. Jón Þór Ólafsson segja hér í gær: Já, þetta eru náttúrlega ekki jafnaðarflokkar. Hann sagði margsinnis að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki jafnaðarmannaflokkur þannig að hann væri að efna loforð sín, og það er hárrétt.

En þetta er sem sagt gagnrýnin sem ég sem jafnaðarmaður hef á þetta frumvarp. Fyrir utan það að hér á að vera að uppfylla loforð sem voru gefin fyrir síðustu kosningar en það er í allt öðrum búningi en ég held að nokkra manneskju hefði getað órað fyrir þegar hlustað var á þau kosningaloforð.

Það hefur líka verið minnst á og ég heyri að margir líta svo á að við eigum að koma upp einhverju kerfi fyrir húsnæðissparnað og þeir vilja kannski jafna þennan séreignartilflutning eitthvað í því og segja að það sé ekki rétt en að við ættum að koma upp húsnæðissparnaðarkerfi.

Virðulegi forseti. Ég er ekki tilbúin til að segja að við eigum að koma því kerfi upp. Auðvitað þurfum við að skoða húsnæðissparnaðarkerfi, en ég held að húsnæðissparnaðarkerfi mundi koma í veg fyrir það að hér byggðist upp eðlilegur leigumarkaður og mér finnst við aftur vera að flækjast í það net að allt húsnæðiskerfið byggi á því að fólk eigi húsnæði sitt sjálft. Það er fólk til sem vill frekar leigja húsnæði en að binda sig alla ævi við að eiga húsnæði. Það er nú þannig og ég tel að við eigum ekki (Forseti hringir.) að búa til kerfi sem geri því fólki mun erfiðar fyrir en hinu sem kýs að eiga húsnæði sitt sjálft.