143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það hljómar í sjálfu sér ekki illa að segja sem svo: Fólk getur valið það hvort það ver séreignarsparnaði sínum til þess að lækka niður höfuðstól lána sinna næstu þrjú árin og ef það gerir það fær það skattafslátt. Þetta hljómar ekki illa. Það sem er hins vegar að þessu er að þeir sem eru tekjuhæstir fá mestan afslátt og hinir eru skildir eftir. Nú væri það kannski í lagi ef hitt skuldaniðurgreiðslufrumvarpið mundi grípa þá sem ekki geta nýtt sér það sem er í þessu frumvarpi, en það er ekki svo. Þar eru líka þessir sömu aðilar skildir eftir og þeir sem eru í mestum vandræðum. Þannig að þegar spurt er: Hverjum nýtast þessi úrræði? er svarið: Tekjuhærri fjölskyldum. Þær fá meiri meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum en aðrar. Meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til að upphæðin verði ekki 500 þús. kr., eins og áður var gert ráð fyrir, heldur 750 þús. kr. Auðvitað sér það hver maður að þeir sem geta nýtt sér þetta að fullu eru þeir tekjuhæstu.

Eftir standa öryrkjar sem eru ekki með launatekjur, námsmenn og ellilífeyrisþegar. Þeir munu ekki njóta þessara úrræða. Það hlýtur að vera gagnrýnivert. Eins og ég sagði áðan væri það kannski ásættanlegt ef það væru ekki einmitt svipaðir hópar sem lenda utan garðs þegar hitt frumvarpið er skoðað gaumgæfilega. Þar eru það líka leigjendur, ásamt lífeyrisþegum og námsmönnum, sem eru út undan.

En allt í lagi, frumvarpinu er ætlað að létta skattbyrði tiltekins hóps skattgreiðenda. Þarna er tekjutap bæði fyrir ríkissjóð og fyrir sveitarfélög upp á tugi milljarða. Þegar úthlutað er slíkum gæðum vill maður auðvitað að það sé gert á sanngjarnan hátt og það séu ekki aðeins þeir sem geta vel bjargað sér með öðrum hætti sem fái hæstu afslættina. Það væri frábært ef hitt frumvarpið mundi bæta upp galla þessa frumvarps, en því miður er það ekki svo.

Mér finnst þess vegna, virðulegi forseti, afskaplega mikilvægt að þau önnur úrræði sem við höfum samþykkt í lögum nýtist þá að fullu tekjulægri hópunum og þar séu ekki líka skerðingar. Allar greiningar hafa sýnt að barnafjölskyldur eru í mestum vanda. Það eru barnafjölskyldur, alveg sama hvort þær skulda húsnæðislán eða ekki. Reyndar hafa nýlegar greiningar sýnt að þær barnafjölskyldur sem eru í leiguhúsnæði eru í mjög miklum vanda og eyða hlutfallslega langmestu af tekjum sínum í húsnæði. Það er því sárt þegar verið er að taka tugi milljarða af skattfé að það fólk sé skilið eftir sem mest þarf á aðstoðinni að halda. Ég vil minna á nýlega skýrslu um barnafátækt sem er skammarleg fyrir okkur Íslendinga. Barnafátækt er hér of mikil og hefur aukist frá hruni. Við hljótum að þurfa að horfast í augu við það og grípa til aðgerða. Ég vildi sjá miklu ákveðnari aðgerðir fyrir barnafjölskyldur í landinu, en það er ekki.

Ég vil vekja athygli á því og mér finnst það vera réttlætismál að fyrst tekjuskattsfrumvarpið er hér opið verði tækifærið gripið og gerðar breytingar á úthlutun barnabóta. Árið 2013, um leið og færi gafst, var gefið heilmikið í. Um leið og síðasta ríkisstjórn sá færi á því að hækka barnabætur gerði hún það, en lét jafnframt fylgja að hækka þyrfti barnabætur næstu árin og auðvitað væri stefnan sú að ná þeim stað sem Norðurlöndin eru á hvað þetta varðar. Við eigum langt í land.

Ákveðið var að verja 10 milljörðum og 762 millj. kr. í fjárlögum 2013 til barnabóta. Viðmiðin sem sett voru, launaviðmiðin, skerðingarviðmiðin, voru sett í október 2012. Síðan hafa orðið heilmiklar launahækkanir, en fyrir fjárlög 2014 var þessum viðmiðum ekki breytt. Það er sorgleg staðreynd að barnabætur skerðast strax við 200 þús. kr. mánaðarlaun. Ég er sannfærð um það, virðulegur forseti, að hv. alþingismenn vilja að sú upphæð sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins gangi öll til barnafjölskyldna. Það var að vísu mun lægri upphæð en árið 2013, eða 10,2 milljarðar kr. Afgangur á árinu 2013 af barnabótunum var 262 millj. kr. Í fjáraukalögum kemur í ljós að þessar 262 millj. kr. ganga ekki til barnafjölskyldna.

Það er ljóst að það verður a.m.k. jafnhá upphæð, ef ekki hærri, sem gengur ekki til barnafjölskyldna af þeim 10,2 milljörðum kr. sem við erum búin að samþykkja. Það er um hálfur milljarður á ársgrundvelli. Hv. þingmenn hljóta að vera sammála mér í því að mikilvægt sé að beina þeim fjármunum til barnafjölskyldna sem lægst hafa launin. Það gerum við með því að hækka framlög með börnum undir sjö ára aldri og með öðrum börnum. Í minni tillögu legg ég til að viðmið vegna barna hækki um 5% og í staðinn fyrir 100 þús. kr. með börnum undir sjö ára aldri verði það 120 þús. kr.

Nú kann að vera að formenn stjórnarflokkanna reikni þetta út og segi: Þetta er ekki nema 5, 10 þús. kr. hækkun hjá barnafjölskyldum. En ég get sagt þeim þær fréttir að hún skiptir þær fjölskyldur mjög miklu máli. Þeir þurfa að opna eyrun fyrir því að 5 þús. kr. á mánuði skipta mjög miklu máli fyrir fjölskyldur sem eru með rétt um 200 þús. kr. á mánuði.

Ég varð vör við það í umræðum um gjaldskrár, þegar við vorum að tala um hækkun á gjöldum á þá sem eru fatlaðir og þurfa nauðsynlega á hjálpartækjum að halda, að hæstv. fjármálaráðherra taldi þetta ekki vera miklar hækkanir og steig hér í ræðustól til að benda á það. En það er bara þannig að fátækt fólki munar um 5 þús. kr. á mánuði. Ef hæstv. ráðherrar, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, skilja það ekki er þjóðin í miklum vanda því við erum hér með stóran hóp sem býr við fátækt, 16% barna á Íslandi búa við fátækt.

Virðulegur forseti. Ég vona svo sannarlega að þessari breytingartillögu minni verði vel tekið. Ég treysti á að nefndin nýti tölulegan gagnagrunn til að reikna tillögurnar út og jafnvel þó að í ljós komi við útreikning að þær séu einhverjum tugum milljónum fyrir ofan 10,2 milljarða hljóta hv. þingmenn að líta á það sem sanngirnissjónarmið að það gangi til barnafjölskyldna um leið og þeir samþykkja milljarða króna stuðning við þær fjölskyldur í landinu sem standa hvað best.