143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er alveg stórmerkilegt að standa í þinghúsinu í dag og í gær og sjá fulltrúa fyrrverandi ríkisstjórnarflokka berjast hér um í málþófi á móti þeim tillögum sem nú liggja fyrir þinginu. Talað var um að hér væri búið að semja um þinglok. Svo er ekki, virðulegi forseti. Hér standa þessir hv. þingmenn sem koma að því samkomulagi í málþófi, setja sig á mælendaskrá þrátt fyrir að allir hafi haldið að þingi ætti að ljúka á laugardaginn.

Það er líka alveg einkennilegt í ljósi þess, virðulegi forseti, að nákvæmlega þessir stjórnmálaflokkar skuli standa hér í þessu málþófi. Að vísu var gefin sú yfirlýsing á síðasta kjörtímabili að ekki yrði lengra haldið í að hjálpa skuldugum heimilum, flokkarnir sem ætluðu sér að koma Icesave yfir á skuldug heimili og stórskuldugan ríkissjóð. Sem betur fer gripu dómstólar inn í það mál eins og frægt er, en nú þegar þessar tillögur koma hér fram (ÁÞS: Hvað með hrunflokkana?) að hjálpa skuldugum heimilum, (ÁÞS: Hvað með hrunflokkana?) m.a. að fara þá praktísku leið að leyfa fólki tímabundið og valkvætt að taka út séreignarsparnað sinn til að greiða inn á húsnæði, þá er allt saman á hvolfi hjá vinstri flokkunum sem sátu í síðustu ríkisstjórn.

Mig langar í framhaldi af því að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason: Hvað finnst honum um skoðanir Landssamtaka lífeyrissjóða, að þeir eru jákvæðir á þessar aðgerðir vegna þess að til langtíma telja þeir að þetta eigi eftir að auka mjög sparnað í séreignarkerfinu að þarna komi inn langtum fleiri einstaklingar en greiða nú inn í kerfið og munu þá spara mun meira til framtíðar þegar þessum valkvæðu aðgerðum er lokið?