143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég ekki að fara að þræta við hv. þingmann um málþóf enda þekkir hún betur til þess en ég frá síðasta kjörtímabili og hefur ástundað það af meiri list en ég hef nokkru sinni lært. Það er hins vegar ekkert málþóf í gangi þegar 20 mál eru afgreidd eins og hér var gert í gær í góðum friði og verið er að semja nú um síðustu útafstandandi málin. Vonandi stendur það sem um var samið að hér yrðu afgreidd lykilmál stjórnarflokkanna, m.a. það mál sem við erum að ræða núna, veiðigjaldafrumvarpið, þar sem til viðbótar við sumargjöf ríkisstjórnarinnar til stórútgerðarinnar stendur nú til að gefa vorgjöf í frekari veiðigjaldalækkunum, og svo samkomulagsmálin. Í því felst að það eru þá ekki ágreiningsmál sem eru afgreidd heldur samkomulagsmál. Það var samkomulagið sem gert var. Það hafa hins vegar orðið nokkrar tafir á því að stjórnarflokkarnir efni það af sinni hendi, en það er í boði af okkar hendi að efna það og við höldum áfram afgreiðslu mála á þeim grunni.

Varðandi spurningu hv. þingmanns er það alveg rétt að ásókn í séreignarlífeyrissparnaðarkerfið mun væntanlega aukast, það er jákvætt. Það sem er neikvætt við það er hins vegar eftirgjöfin á sköttunum sem er algjörlega ný. Það var ekki í þeim heimildum sem veittar voru til úttektar séreignarsparnaðar á síðasta kjörtímabili. Vandinn er akkúrat sá að flokkur hv. þingmanns stefnir nú að því að gera þetta að varanlegum þætti í viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu að húsnæðissparnaður verði hluti af séreignarsparnaðarkerfinu. Það held ég að sé mjög misráðið. Ég styð og er sammála hugmyndunum um að stefna beri að húsnæðissparnaði, þess vegna með ríkisstuðningi, en það er mjög misráðið að tengja það viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu því að það á að vera sjálfstætt kerfi. Ef því verður blandað saman mun það hafa margar neikvæðar afleiðingar (Forseti hringir.) sem ég get farið betur yfir í seinna andsvari.