143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér er alveg verulega misboðið að hlusta á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem er því miður farin úr salnum, þegar hún kemur hingað upp og sakar hv. þingmenn, sem eru hér að ræða mjög stórt mál, annað af stóru málum ríkisstjórnarinnar, risastórt efnahagsmál sem þessi sama ríkisstjórn kenndi við heimsmet, um málþóf — hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem talaði hér að meðaltali í 22–24 tíma á ári á síðasta kjörtímabili, sem er helmingi meira en sú sem hér stendur sem hefur ekki einu sinni haldið fyrstu ræðu sína í 2. umr. Mér er algerlega misboðið að hér sé verið að beita þöggunartilraunum gagnvart hv. þm. Árna Páli Árnasyni með því að saka hann um málþóf þegar hann er í ósköp eðlilegri umræðu um risavaxið mál. Mér finnst ástæða til að forsætisnefnd taki það til umræðu hvernig stöðugt er verið að misnota þetta orð, málþóf, um eðlilega umræðu, en það kemur nú kannski ekki á óvart að þessir ríkisstjórnarflokkar hneigist til þöggunartilburða. (KaJúl: Heyr, heyr.)